Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

24.09.2013

Jafnaðarmannaflokkur

Það er ekki eðlilegt að Ísland eigi sér ekki jafnaðarmannaflokk með kjörfylgi upp á 30 - 40%. Nútímalegan lýðræðisflokk, sem stuðlar að frelsi og hagkvæmni og óttast ekki markaðslausnir. Flokk sem jafnframt gætir þess að markaðsöflunum sé ekki sleppt lausum á grunnstoðir þess velferðarsamfélags sem hann vill skapa. Vill skapa skrifa ég, vegna þess að velferðarsamfélag á Íslandi heyrir í besta falli fortíðinni til; hefur jafnvel aldrei verið meira en nafnið. Þetta sannast af stöðu heilbrigðismála í landinu og af því neyðarástandi sem ríkir á leigumarkaði í höfuðborginn - svo einungis tvö dæmi séu tekin. Uppbyggingin - efnisleg og huglæg - sem er lífsnauðsynleg, getur aldrei orðið að veruleika nema þjóðin eigi sér öflugan jafnaðarmannaflokk. Niðurstaðan er því sú að vinstri menn - félagshyggju fólkið - þarf að sameinast. Það getur gerst og kannske er að skapast grundvöllur fyrir varanlegri sameiningu vinstrimanna með kynslóðaskiptum í pólitíkinni. En þótt mikil nýliðun hafi að undanförnu orðið á Alþingi, þá eru þar enn fyrir á fleti einstaklingar sem endilega ættu að taka pokann sinn. Segja má að enn vanti freka fólk út úr stjórnmálunum en í þau. Við þurfum að losna við gömlu kreddurnar - arfleifðina sem nærð var í Alþýðubandalaginu og er enn að einhverju marki haldið tórandi í VG. Við þurfum raunverulegan jafnaðarmannaflokk.