Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

24.11.2007

Iðrun Framsóknar

Sérkennileg lesning er stutt grein þingmannsins Birkis J. Jónssonar í 24 stundum nú á dögunum. Í upphafi greinarinnar lýsir þingmaðurinn bágu ástandi á húsnæðismarkaðnum á Reykjavíkursvæðinu nokkuð réttilega en tekur svo gönuhlaup mikið og fer að fleypra um að ekki bóli á aðgerðum félagsmálaráðherrans, Jóhönnu Sigurðardóttur, til þess að leysa vandann. Það  er spaugilegt ef Framsóknarmenn, sem eru aðalhöfundar núverandi vanræðaástands, bíða þess báþrútnir að Jóhanna skeri þá úr snörunni. Það er í sjálfu sér rök fyrir slíkum hugsanagangi því lausnir í húsnæðismálum, eins og  í svo fjölmörgum öðrum málum, er auðvitað helst að finna hjá Jafnaðarmönnum. Hinsvegar er málfluttningur  þingmannsins ákaflega óskammfeilinn því varla er hann svo barnungur að hann muni ekki framgöngu eigni flokks í því að eyðileggja verkamannabústaðakerfið og fremja fleiri voðaverk gegn hagsmunum almennings. Ljós í myrkrinu er þó sá vottur af iðrun sem greina má í lok þessa pistils Birkis Jóns; hann virðist telja að nú þurfi að koma böndum á húsnæðismarkaðinn og lætur jafnvel að því liggja að rétt kunni að vera að grípa til félagslegra úrræða til þess að tryggja fólki eðlilega möguleika til húsnæðiskaupa. Það er spor í rétta átt sem ber að fagna.

 

11.11.2007

Verðsamráð á húsnæðismarkaði ?

Má íbúðarhúsnæði kosta hvað sem er ? Mega byggingarverktakar og seljendur húsnæðis haga sér eins og þeim sýnist ? Hvar er ASÍ með sitt verðlagseftirlit og hvar er samkeppniseftirlitið þegar kemur að verðlagningu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu ? Þegar litið er á raun byggingarkostnað annarsvegar og söluverð hinsvegar er alveg ljóst að um hreint okur er að ræða hér í Reykjavík. Þetta sést berlega er húsnæðisverð á öðrum svæðum er borið saman við Reykjavík. Víða þar sem eftirspurn er minni er verðið nær framleiðslu kostnaði og álagning eðlileg. Þetta eru auðvitað ekki nýjar fréttir, hér eru maðrkaðslögmálin að verki, segja menn. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum, það eigum við eftir að sjá þegar hægir á eftirspurn, sem er fyrirsjáanlegt. Markaðslögmálin margnefndu virka einkum á annan veginn, eða halda menn að húsnæðisverð muni stórlækka hér í Reykjavík þegar dregur úr eftirspurn ? Það mætti ætla, því nú þegar er offramboð af húsnæði í Reykjavík og nágrenni. Það mun þó ekki gerast, verðinu verður haldið uppi og íbúðir látnar standa óseldar, bankarnir munu sjá til þess. Gæti það kallast samráð ? Ætti samkeppniseftirlitið að skoða málið ? Einhverjir verktakar fara svo á hausinn, sem gerir ekkert til því alltaf má fá nýja kennitölu. Aðalatriðið verður að bíða af sér hretið og lækka ekki verðið sem neinu nemur.

Virk, heiðarleg samkeppni er okkur sannarlega til hagsbóta. Slíkir viðskiptahættir standa þó veikum fótum og þurfa stöðugrar gjörgæslu við. Gróðamennirnir sem glaðbeittir lýsa því yfir í fjölmiðlum að þeir ,,fagni allri samkeppni" eru svo veikir í trúnni að þeir geta hvenær sem er dottið í pælingar um það hvernig komast megi hjá þessari annars gleðilegu samkeppni. Hvað sagði ekki Þórbergur um ófullkomleika mannanna.

Fyrir nokkrum dögum gekk hér mikið á í fjölmiðlum vegna meints verðsamráðs á matvörumarkaði. Við fylgjumst grannt með verðlagi í matvöruverslunum og tíðar verðkannanir sporna við hækkunum á matarverði. Það er samkomulag um það á Alþingi og meðal þjóðarinnar að við látið ekki bjóða okkur hvað sem er þegar kemur að verðlagningu á matvöru. Þetta vekur spurningu um samræmi. Hver einast fjölskylda þarf að tryggja sér húsnæði. Hvers vegna gerum við ekki sömu kröfur um eðlilega samkeppni og hóflega verðlagningu á húsnæði eins og við þó krefjumst þegar um matvöru er að ræða ?

Stórnmálamennirnir hafa sleppt markaðsöflunum lausum - nánast sigað þeim á húsnæðismarkaðinn. Á þeim vettvangi er ekkert eftirlit og engin viðspyrna við framrás græðginnar. Við slíkar aðstæður slíta businessmenn sér ekki út á samkeppni heldur sameinast í okrinu. Þar bilar ekki samstaðan. Á meðan setja þingmenn á langar tölur um krónu hækkun eða lækkun á vatnsbætta hakkinu sem góði kallinn í Bónus selur okkur. Málefni sem vissulega er allrar athygli vert en er þó smámunir samanborið við ástandið á húsnæðismarkaðnum. Þar er nú svo komið að fólk með meðallaun ræður ekki við að kaupa sér húsnæði.

Til að bregðast við þessu þarf að endurreisa verkamannabústaðakerfið - en í breyttri og bættri mynd. Hlutverk þess á að vera að láta byggja og hafa til sölu íbúðir á eðlilegu verði. Með eðlilegu verði er átt við raunverulegan byggingarkostnað að viðbættri hæfilegri þókknun til byggingarfélagsins til þess að standa undir kostnaði. Endurreisn félagslegs húsnæðiskerfis myndi leysir úr miklum vanda fjölda fólks. Slíkt kerfi myndi einnig skapa verðviðmið og veita þannig bráðnauðsynlegt aðhald á húsnæðismarkaðnum.

06.11.2007

Sérgæðingar á Alþingi ?

Í umfjöllun um húsnæðismál í síðust viku kom fram að verð á húsnæði  á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 75% á undanförnum þremur árum, eða síðan bankarnir komu að fullu inn á húsnæðismarkaðinn. Þá kom fram að afborgun af 20 milljón króna húsnæðisláni sem tekið var  árið 2004 hefur hækkað um 33% !  Þurfa menn frekari vitna við til að sjá að ástandið er með öllu óviðunandi ?
Við vorum að ræða þetta, þrír kunningjar, og undrast að tómlæti stjórnmálamanna í þessu efni er einn félaginn
  sagði: ,,Stjónmálamennirnir eru allir í eigin húsnæði og sjá ekki vandamálið".  Þetta fannst mér í fyrstu alveg   fráleit skýring en þegar betur er að gáð má sjá að hún er ekki alveg út í hött. Meira um það seinna, en lögin um eftirlaunin, sem meirihluti þingmanna samþykkti, eru auðvitað til vitnis um græðgi og sérgæsku margra þingmanna sem eru svo viðræðugóðir fjórða hvert ár en fjarlægir almenningi þess á milli.  Hvers vegna lifir fjöldi eldri borgara undir fátæktarmörkum og stendur í ströngu að greiða skuldir sínar við Tryggingastofnun ? Ætli það geti verið vegna þess að þeir eru svo fáir á þingi ?