Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

27.04.2005

Um hvað snýst formannskosning í Samfylkingunni '

Um hvað snýst formannskosning í Samfylkingunni ?

 

   Í kastljóssþætti þ. 25. þm. mættu Össur og Ingibjörg til að ræða formannskjör í Samfylkingunni. Vafalaust hafa einhverjir fylgst spenntir með þættinum í upphafi og vænst þess að fá að heyra haldbærar skýringar og rök fyrir því að nú beri að skipta formanni  flokksins út. Þeir hljóta að hafa orðið fyrir vonbrygðum. Ingibjörg boðar engin ný tíðindi og hefur ekkert frumkvæði að nýjum lausnum í stjórnmálum - einungis framboð sitt til formennsku. Við skýrar línur Össurar um næstu skref flokksins; baráttuna í þingkosningum sem fram undan eru og stjórnarmyndun að þeim loknum, hafði Ingibjörg engu að bæta. Engin viðbrögð við áherslum Össurar í atvinnumálum. Hugmyndin um að styrkja og breikka atvinnulífið m.a. með eflingu smáfyrirtækja virtist ekki verðskulda svo mikið sem litla athugasemd frá frambjóðandanum. E.t.v. hugsar Ingibjörg Sólrún ekki mikið um smáfyrirtæki.

 Innlegg hennar í þáttinn var einungis almennt tal um gildi jafnaðarstefnunnar  sem allir eru auðvitað sammála um innan flokksins. Hún kom líka að nauðsyn þess að efla menntun í landinu. Það eru reyndar sannindi sem öllum stjórnmálamönnum eru tungutöm þótt efndir séu misjafnar samanber sveltistefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Háskóla Íslands. Nú, svo mætti líka nefna meðferð R-listans á Námsflokkum Reykjavíkur.

 

Hvert er erindið ?

   Af tali Ingibjargar í þættinum virðist helst mega ætla að framboð hennar sé tilkomið vegna þess  að ,, fólk hafi sagt? að hún eigi að verða formaður flokksins. Sjálf lagði hún það til málanna að hún verði þá að fá að taka við núna - ekki seinna.  Þetta er sannarlega veik ástæða til að efna til formannsslags í flokknum og það þegar gengi hans er með ágætum eins og nú er raunin.

Það vantar enn sem fyrr haldbær rök fyrir því að fá Ingibjörgu nú stýrið þegar búið er að leggja flokkinn á réttan kúrs en vandasöm sigling framundan.

Ingibjörg og stuðningsmenn hennar ættu að velta fyrir sér þeirri spurningu  hvort lítillega dalandi fylgi Samfylkingarinnar í síðustu könnun sé afleiðing þess að efnt hefur verið til formannsslags í flokknum.

 

Framtíðarhópurinn

   Ingibjörg hefur reynt nokkuð að gera út á gagnrýnin ummæli Össurar um störf framtíðarhópsins s.k. og heldur því fram að ummælin beinast gegn fjölda flokksmanna. Össur hefur sjálfur svarað þessu  en rétt er að benda á að fleiri hafa gagnrýnt bæði vinnubrögðin í hópnum svo og sjálfa aðferðina ,nú síðast varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, sem kallar vinnubrögðin ólýðræðisleg  elítustjórnmál.

 

Ingibjörg er ekki óskeikul

    Raunar er erfitt að sjá að Ingibjörg Sólrún sé sérstakur fulltrúi opinna stjórnarhátta og lýðræðis fram yfir marga aðra stjórnmálamenn. Það er líka ljóst að hún stendur engan veginn undir öllu því lofi sem stuðningsmenn hennar hafa borið hana undanfarið. Ekki má þó lá henni það, slíkt væri varla í mannlegu valdi svo stórkostlegar hafa lýsingar sumra greinahöfunda verið. En þegar litið er yfir stjórnmálaferil Ingibjargar síðustu árin þá blasir við að hún gerir mistök eins og aðrir. Hinsvegar hefur hún komist upp með ýmsa hluti og sloppið furðu vel við gagnrýni. Brotthvarf hennar úr embætti borgarstjóra er ljóst dæmi um þetta. Það ferli allt var eitt risaklúður og ljóst að borgarstjórinn fyrrverandi reiknaði dæmið alveg kolvitlaust þótt athyglin manna hafi ekki mikið beinst að því atriði málsins.

 

Saman að settu marki

   Það er mjög heppilegt að Ingibjörg, varaformaður flokksins , hefur nú fengið sæti á Alþingi. Vonandi ríkir samheldni og farsælt samstarf  jafnt í þingflokki sem flokknum sjálfum að loknu þessu kjöri hver sem úrslit þess verða.  

Ég vona ( og treysti því reyndar) að formaðurinn vinni og haldi þannig stöðu sinni  því að við erum á réttri leið. Öflugur jafnaðarmannaflokkur er nú staðreynd í íslenskri pólitík. Það væri í raun stórundarleg ráðstöfun að ýta nú til hliðar, rétt í upphafi kosningaundirbúnings, formanninum sem stýrt hefur flokknum í hinu stutta en snarpa uppbyggingarferli.  Samfylkingin þarf að eflast enn frekar og verða fullkomið mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, það er eðlilegt og raunhæft markmið. Jafnframt er ekki hægt að hugsa sér öruggari grundvöll fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu en einmitt slíka  valdajöfnun milli flokkanna.

 

Haukur Brynjólfsson.

22.04.2005

Hreindýrapistill 1

Hreindýrapistill I.

 

Sérkennilegt mál er komið upp í hreindýraveiðunum, þar sem nokkrir landeigendur vilja ekki una settum reglum um fyrirkomulag veiðanna, heldur banna að þær fari fram á þeirra löndum. Fram hefur komið a.m.k. hjá einhverjum landeigendum að þeir vilji ráða því hverjir veiði í þeirra landareign. Landbúnaðarráðherra var ekki langt frá því að taka undir með þessum mönnum í fréttatíma RÚV nú nýlega og kvað bændur ekki vilja hafa illa umgengni á löndum sínum. Þó nú ekki væri en það er ansi falskur hljómur í þessari skýringu. Miklu sennilegra er að rót vandans liggi í því að  menn geta ekki sætt sig við að sá tími sé liðinn er einhverjar óskiljanlegar klíkur réðu hreindýraveiðunum; lokuðu þeim fyrir þorra veiðimanna en hleyptu sínum útvöldu að.

 

Í framhaldi af samþykkt veiðilaganna (nr 64/1994) var komið fastri og skipan á úthlutun veiðileyfa. Allir með veiðikort og viðeigandi skotvopnaleyfi geta sótt um að veiða hreindýr. Berist fleiri umsóknir en nemur fjölda þeirra dýra sem á að fella er valið úr umsækjendum  með slembiúrtaki í tölvu. Þannig eiga allir jafna möguleika á að fá úthlutað veiðileyfi.

 Auðsjáanlega er þetta ágæta fyrirkomulag í uppnámi ef landeigendur fara að taka sig saman um að banna veiðar á löndum sínum. Slíkt framferði verður einungis skilið sem tilraun til þess að koma á gamla klíkufyrirkomulaginu aftur. Þá skyldu menn athuga að þolinmæði okkar veiðimanna er ekki takmarkalaus. Ef landeigendur vilja nú eyðileggja gildandi úthlutunarkerfi, sem var stór framför og sátt hefur að mestu verið um, þá hljótum við að setja málin í samhengi og spyrja:  Hvers vegna eigum við að greiða ábúendum lögbýla arð af hreindýrum sem ganga á almenningum og eru felld á almenningum? Óþarft er að gleyma því að hreindýrin eru þjóðareign.

Á grundvelli laga um þjóðlendur er nú skorið úr um mörkin á milli eignarlanda og almenninga. Þessu starfi verður lokið á næstu árum. Svæði utan eignarlanda verða þjóðlendur í eigu ríkisins og á forræði forsætisráðherra hverju sinni. Ekki er nokkur vafi á að innan þjóðlendna verða þá stór dvalarsvæði hreindýra. Sennilega verður einnig talið heppilegt að koma upp hreindýrahjörðum víðar um landið en nú er. Almenningur þarf að vera þarna vel á verði og fylgjast með því þjóðin öll þarf að koma að ákvörðunum um nýtingu þjóðlendna, ekki bara ábúendur lögbýla eða oddvitar sveitastjórna.

 

Með veiðikveðju,

Haukur Brynjólfsson.

20.04.2005

Ný lína hjá Ingibjörgu Sólrúnu.

Ný lína hjá stuðningsmönnum Ingibjargar Sólrúnar.

 

Málefnafátækt stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar hefur nú tekið á sig nýja mynd.  Fram að þessu hefur einkum verið veðjað á að lofsyngja í sífellu  hina stórkostlegu foringjahæfileika frambjóðandans. Þetta er auðvitað einhæfur málfluttingur til lengdar og reyndar orðinn nokkuð vandræðalegur. En nú er eitthvað að rætast úr  í þessum efnum hjá stuðningsmönnunum. Þeir hafa nú fundið nýja línu að fylgja sem gengur út á  kenning um að íhaldið ætli að fella Ingibjörgu. Íhaldið hefur að vísu ekki kosningarétt í Samfylkingunni svo þetta á að gerast svona óbeint. Íhaldið vill ekki að Ingibjörg verði formaður, þess vegna verða stuðningsmenn Össurar handbendi íhaldsins samkvæmt þessari kenningu. Takk fyrir kærlega - hvar er nú gula spjaldið?

 

Prófessor Þorbjörn Broddason var á þessari línu í ansi skondinni og skemmtilega grein sem birtist í Morgunblaðið líklega sl. föstudag. Hann fer þó fínt í hlutina, en  eftir venjulegan foringjalofsöng víkur hann að glömpum sem hann telur að sjá megi  í augum andstæðinga Ingibjargar við tilhugsunina um að hún nái ekki kjöri. Og hverjir kynda þessa glampa?Jú, kjósendur Össurar auðvitað.

 

Þetta er bráðskemmtilegt; maður getur alveg séð fyrir  sér félagsfræðiprófessor ofan úr Háskóla taka sér göngu í bæinn án þess að eiga sér ills von. En hvað gerist?Jú, hér og þar sér hann illkvittnisglampa í augum íhaldsins. Prófessornum verður hverft við sem von er, hvað er nú á seiði ? Íhaldið er ekki vant að vera svona á svipinn. En sem sannur vísindamaður kann hann að leggja saman tvo og tvo og þótt meira væri. Hann reiknar því strax út að það glampar svona á íhaldið vegna þess að allskonar óvitar í Samfylkingunni vilja fella hinn mikla foringja Ingibjörgu Sólrúnu. ,,Skýst þótt skýr sé?  mætti segja: Eins og stundum hendir þá sem hafa grunnmúraða vissu um eigin óskeikulleika þá er ályktun prófessorsins rökleysa: Ingibjörg er ekki formaður sem sótt er að.  Hún fellur því ekki þótt hún vinni ekki formannskjörið - hún nær bara ekki kjöri.

Haukur Brynjólfsson.

16.04.2005

Sérálit um minka.

Ráðgjafarnefnd um villt dýr

                                                                                     

Haukur Brynjólfsson:

 

                          

Minkar.

Ég tek ekki undir það álit að minkurinn sé óæskilegt aðskotadýr í íslenskri náttúru. Það eru um sex áratugir síðan minkar voru fluttir hingað og tóku að dreifast um landið. Minkurinn er nú hluti af náttúru landsins, vel aðlagaður umhverfinu og hinum lögbundnu veiðum, sem stofninn ber með ágætum. Sjálfsagt er að líta á minkinn sem veiðidýr, en veiðarnar ætti einkum að stunda seint á haustin og framan af vetri, þegar verðmæti er í skinnunum.

Af athugun á fæðuvali minks við Grindavík og við Sog ( Karl Skírnisson og Ævar Petersen), verður ekki ráðið að minkur sé almennt sá skaðvaldur sem margir vilja halda. En minkurinn er öflugur drápari og dæmi sanna að hann getur valdið staðbundnu tjóni sem þá þarf að bregðast við. Jafnframt kann að vera þörf á sérstöku átaki til að halda mink niðri á ákveðnum svæðum einkum til að verja þar fuglalíf.  Það vantar hinsvegar rök fyrir því að halda áfram með óbreyttum hætti opinberum minkaveiðum um allt land, kostuðum af almannafé. Augljóslega ræðst stærð minkastofnsins ekki af veiðunum.

 

Við hljótum að sætta okkur við minkinn sem hluta af lífríki landsins. Minkaveiðar ættu að grundvallast á nýtingu stofnsins og því að verjast tjóni af hans völdum þar sem  það á við.

Orð eins og eyðing og útrýming ættu að hverfa úr  umræðunni.

 

 Desember 1994.

 

 

16.04.2005

Sérálit um refi.

Ráðgjafarnefnd um villt dýr.

Haukur Brynjólfsson:

 

Refir.


Ég tel að gjörbreyta eigi framkvæmd refaveiða í landinu á næstu árum. Veiðarnar verði gerðar mannúðlegri með því að hætta grenjavinnslu. Jafnframt verður að  tryggja betri  nýtingu þess fjár sem ákveðið er að leggja til refaveiða á hverjum tíma, en mestur hluti þess fer einmitt til grenjavinnslu. Draga þarf skipulega úr grenjavinnslu á næstu árum og fylgjast með áhrifum þeirrar breytingar. Markmiðið gæti verið að hverfa alveg frá grenjavinnslu á næstu 10 árum. Eftir það yrði þessari veiðaðferð einungis beitt í afmörkuðum tilfellum ef sýnt þætti að grendýr yllu beinu tjóni á búfénaði. Nauðsynlegu veiðiálagi á refastofninn yrði náð með því að greiða há skotlaun fyrir unnin dýr. Veiðarnar ætti  einkum að stunda  á veturnar.   

 

Það er meginregla að dýr njóti friðunar meðan þau eru að koma upp ungviði. Þetta er ágæt hagfræði en er einnig í samræmi við mannúðarkennd fólks.  Það þurfa að vera ríkar ástæður til að virða ekki þessa reglu. Slíkar ástæður eru vissulega ekki  fyrir hendi varðandi refinn og hafa ekki verið lengi. Ljóst er að nú er varið til grenjavinnslu hærri upphæð en nemur því tjóni sem refir valda á búfé.  Auk þess hljóta að vakna spurningar um meðferð þessara fjármuna þegar tölur um refaveiði eru skoðaðar:  Árið 1993 var meðal kostnaður við unnin ref á landinu kr.  12.330- . Veiðikostnaður er þó mjög misjafnhár milli sýslna eða kr. 6.273 - á hvert unnið dýr í Snæfellsnessýslu upp í kr. 26.339 - á hver unnið dýr í Suður Þingeyjasýslu fyrrnefnt ár. 

 

Ég tel eins og áður segir að hverfa eigi frá þessu kerfi, hætta að mestu  að ráða menn til refaveiða en hækka skotlaun í 5 - 8 þúsund krónur fyrir hvern unninn ref. Upphæð skotlauna gæti verið breytileg og farið  eftir því hve mikil þörf væri talin á að veiða refi á hverju svæði. Þannig mætti stýra veiðiálagi og beina því þangað sem mest þörf er talin á að veiða refi. Með því að taka upp þetta fyrirkomulagi en hverfa frá grenjavinnslu mætti lækka veiðikostnað um a.m.k. 1/3 frá því sem nú er miðað við sama fjölda veiddra refa. Veiðarnar ætti að stunda á veturna með nýtingu skinna í huga. Þær gætu tengst smáfyrirtækjum, sem framleiddu úr skinnum dýra sérhannaða hluti s.s. kraga, húfur ofl.

 

Desember 1994.

 

16.04.2005

Formannskjör í Samfylkingunni.

Farsæll og aflasæll formaður

    Samfylkingunni hefur vegnað vel undir forystu Össurar Skarphéðinssonar.

 Óvisst fyrirbæri hefur þróast í þann samstæðan, öflugan jafnaðarmannaflokk sem okkur vinstrimenn úr ýmsum  hornum hafði  dreymt um. Samfylkingin er á nokkrum árum orðin annar hinna tveggja stóru flokka í landinu. Með vexti Samfylkingarinnar er að verða sú breyting á valdahlutföllum stjórnmálaflokkanna í landinu, sem þjóðin hefur lengi þarfnast. Allt þetta hefur gerst á fáum árum - í formannstíð Össurar. Engum dettur þó í hug að eigna formanninum einum slíkan árangur, auðvitað er þar að baki mikið starf fjölda fólks. Hlutverk formannsins hefur ekki síst verið að laða fólk til samstarfs. Hæfileikinn til að virkja fólk og fá það til samstarfs um fjölþætt verkefni er líklega verðmætasti eiginleiki nútíma stjórnmálaforingja.

 

Forusta á tvísýnum tímum

   Össur tók að sér forustuna þegar ákveðið var að stíga skrefið til fulls og mynda formlegan stjórnmálaflokk. Þá var engin samkeppni um hlutverkið  og menn misjafnlega trúaðir á að verkefnið tækist vel. Því kusu sumir að standa á hliðarlínu og sjá til hvernig færi. Nýkjörinn  formaður átti hinsvegar fyrir höndum ómælda vinnu sem hann hefur gengið í af mikilli atorku og beitt þar jöfnum höndum dugnaði og lagni. Árangurinn blasir nú við: flokkur með yfir 30% fylgi. Þannig er staðan  þegar næsta verkefni er að undirbúa kosningar.

 

Það mat á aðstæðum  sem hlýtur að liggja að baki ákvörðunar um að sækja að formanni flokksins  er  rangt. Það er  engin raunveruleg gild ástæða  til þess að  fella nú formann flokksins.

 

Enginn málefnaágreiningur

   Einmitt vegna þess að ekki er hægt að benda á neina raunverulega  þörf á að skipta um formann í flokknum - málefnin hreinlega vantar - eru stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar í vanda eins og berlega sést af málflutningi þeirra. Þar hefur mikið borið á  persónudýrkun og  einhverjum furðulegum foringjalofsöng sem virkar ansi fornlegur. Við höfum fengið að  lesa vitnisburði um að Ingibjörg sé fædd foringi, hún sé  eldsnögg að greina mál og skilja sundur kjarna og hismi og auk þess alveg sérlega viðræðugóð. Einn greinarhöfundur gat þess sérstaklega hve almenningur hefði átt góðan aðgang að  Ingibjörgu sem borgarstjóra. Slíkur vitnisburður er ekki algildur. Það urðu nefnilega ýmsir frá að hverfa án þess að fá viðtal við borgarstjórann Ingibjörgu þótt þeir teldu sig hafa þýðingarmikil mál til úrlausnar. Um það get ég sjálfur vitnað af eigin reynslu.

 

Næg verkefni fyrir öflugt fólk

   Sumir hafa jafnvel haldið því fram að nú sé beinlínis nauðsynlegt að kjósa Ingibjörgu til formanns í flokknum til þess að veita henni nægjanlegt  svigrúm í stjórnmálum, eins og það er orðað. Þessi málflutningur stenst ekki skoðun. Ingibjörg er varaformaður flokksins. Þar að auki leiðir hún s.k. framtíðarhóp en þeim hópi er ætlað ekkert minna verkefni en að móta  stefnu flokksins til framtíðar. Þessu til viðbótar hefur henni nú verið tryggt  sæti á Alþingi. Það er því ljóst, að þótt Ingibjörg Sólrún sé öflugur stjórnmálamaður, þá skortir hana ekki verkefni eða  svigrúm til pólitískra athafna þótt hún veljist ekki til formennsku í flokknum að þessu sinni.

Össur hefur reynst farsæll og aflasæll formaður. Flokkurinn þarf einmitt á þeim eiginleikum að halda í komandi kosningum.

Haukur Brynjólfsson, rafvirki.

( Birt í MBL í apríl 2005).

16.04.2005

Minkur og minkaveiðar.

Ráðgjafarnefnd um villt dýr.

 

Haukur Brynjólfsson:

 

Um mink og minkaveiðar.

 

Markmið með veiðunum

Samkvæmt lögunum nr. 64 / 1994 er markmið með minkaveiðum að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum minka. Þetta er viðhorfsbreyting frá fyrri lögum ( 1957 ),þar sem markmiðið virðist hafa verið að útrýma mink úr landinu.  Við höfum því - í bili a.m.k. - sætt okkur við þessa dýrategund í landinu, en kostum til þess verulegum fjármunum að sporna við  áhrifum hennar á aðra þætti lífríkisins.     

 

Sögubrot og veiðiaðferðir.

Nú eru liðin 70  ár síðan  minkar voru fyrst fluttir til landsins og minkaeldi hófst. Nánast strax í upphafi þessa reksrtar munu minkar hafa sloppið úr ófullkomnum búrum og landnám þeirra úti í náttúrunni þar með hafist.  Síðan hefur minkurinn verið að dreifast um landið og styrkja hér stöðu sína. Fyrstu bæli villiminka eru sögð hafa fundist 1937. Árið 1940 var farið að greiða verðlaun fyrir að vinna mink, og 1943 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um að rannsökuð yrðu hugsanleg áhrif minks á lífríkið. ( Ekkert er nýtt undir sólinni) Alla tíð síðan höfum við hamast á þessu kvikindi með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, lengi framanaf með það að markmiði að vinna fullnaðarsigur og útrýma mink  úr landinu. Með lögum um eyðingu refa og minka 1949 var sveitarfélögum gert að skipuleggja minkaveiðar hvert á sínu svæði og greiða út verðlaun fyrir unnin dýr, sem ríkið síðan endurgreiddi. Þannig komst smám saman skipulag á veiðarnar, misjafnlega skilvirkt þó, enda þörfin ekki sú sama á öllum svæðum þar sem minkurinn var enn að breiðast út um landið. Þá hefur það tekið menn nokkurn tíma að átta sig á hvernig best væri að standa að veiðum á þessu nýja dýri. Grenjavinnsluhefðir, sem þróast höfðu í refaveiðunum hentuðu ekki við þessar veiðar. Uppúr 1950 ritaði Carl Anton Carlsen, danskur maður sem hér bjó, leiðbeiningar um minkaveiðar. Í  Þeirri grein er líklega að finna fyrstu opinberu leiðbeiningarnar um minkaveiðar hérlendis. Þar var og fjallað um minkahunda og þjálfun þeirra.  Carlsen var frumkvöðull að skipulegum minkaveiðum hér á landi og helgaði sig þessum veiðum á 6. áratug síðustu aldar. ( Launaður af Búnaðarfélagi / Landbúnaðarráðuneyti ?) Auk þessa ræktaði Carlsen minkahunda árum saman, þjálfaði þá og seldi slíka hunda víða um land.  Seinna tók veiðistjóraembættið við rekstri hundabúsins. Í grein sinni mun Carlsen hafa lagt höfuðáherslu á  að minka væri leitað með hundum og bæli þeirra fundin og grafin  upp. Þó var í greininni einnig fjallað um gildruveiðar og sýnt dæmi um gerð kassagildru. Þessi pistill kom mörgum að gagni og með honum má segja að lagður hafi verið grunnur að minkaveiðum áhugasamra manna víða um landið.

Árið 1957 voru lögin um eyðingu refa og minka enn endurskoðuð, kveðið á um stofnun embættis veiðistjóra og fyrsti veiðistjórinn, Sveinn Einarsson, ráðinn. Þar með var því skipulagi komið á veiðarnar  sem að mestu hefur haldist  fram á síðustu ár. Að leita með hundum og grafa upp minkabæli varð langalgengasta veiðiaðferðin og er enn, samanber fyrirmæli um framkvæmd minkaveiða í 8.gr. reglugerðar  um refa og minkaveiðar frá 1995.

Sumarið 1957 var  farinn leiðangur á Arnarvatnsheiði þar sem einungis var veitt í gildrur, fótboga, sem lagðir voru í slóðir. Þannig fengust 46 dýr við Arnarvatn stóra, Réttarvatn og Austurá. ( Veiðimennirnir voru tveir unglingar: Agnar Guðmundsson frá Kolbeinsá í Hrútafirði og undirritaður). Árið eftir var sömu veiðiaðferð  beitt á afrétti Borgfirðinga og fengust þá 27 dýr við Arnarvatn litla, meðfram Norðlingafljóti og við Reykjavatn.( Undirritaður var þá einn á ferð).  Fyrri veiðiferðin var farin í ágúst, sú seinni um mánaðamót september / október. Þá var í mars mánuði árið 1958 farið á Arnarvatnsheiði til að huga að mink og dvalið nokkra daga við Arnarvatn stóra. (Leiðangursmenn voru Sveinn Einarsson, veiðistjóri, Tryggvi bróðir hans og undirritaður. Skýrsla um þessa för hlýtur að vera til í fórum veiðistjóraembættisins). Gengið var nokkuð víða um heiðina og m.a. farið að Reykjavatni. Athyglisvert var að leiðangursmenn fundu varla nokkur ummmerki um mink. Þar sem Austurá fellur úr Arnarvatni varð þó vart við mink, eftir slóðum að dæma eitt karldýr. Þetta þótti  merkilegt því reynsla var fyrir því að á sumrin væri mikið af mink á þessum slóðum. Þetta hlaut að þýða að minkurinn flytti sig af heiðum og niður á láglendi yfir veturinn. Sú ályktun kveikir aftur þá hugmynd að jafnan eigi mörg dýr leið niður með  Austurá og Norðlingafljóti á haustin og framan af vetri.

   

 

Árangur af veiðum - staðan í dag.

Minkastofninn stendur enn með ágætum undir veiðunum og ekki verður annað ráðið af línuriti yfir minkaveiði 1957 - 2000 en að stofninn sé í vexti. Það verður sem sagt að auka afköstin í veiðunum sé það ætlunin að fækka villimink í landinu. Því marki verður varla náð með því að grafa  meira eða rífa upp urðir. Slíkt er einfaldlega of mikil vinna -  of dýrt og  tímafrekt.


Framtíðarsýn.

Verði fjármagni veitt til  áframhaldandi rannsókna á minknum fæst væntanlega á næstu árum vitneskja um stærð stofnsins. Þá verður hægt að meta hve mikið þarf að veiða til þess að til fækkunar komi. Jafnframt þarf að halda  áfram að gera tilraunir og þróa veiðiaðferðir. Æskilegt er að leggja sérstaka áherslu á tilraunir með ýmsar gerðir af gildrum. Vel heppnaðar gildrulagnir eru stöðugt að veiða og valda ekki landskemmdum. Sérstakt átak til að vekja áhuga ungra veiðimanna á minkaveiðum gæti verið áhrifaríkt.

 Huga mætti að samstarfi veiðistjóra og  náttúrustofa víða um landið með það fyrir augum að fela stofunum ábyrgð á framkvæmd minkaveiða hverri í sínu héraði. Markmiðið væri að fylgja aukinni vitneskju um minkinn markvisst eftir með veiðum og gera tilraunir og þróa veiðiaðferðir víða um landið. Ætla má að staðþekking samhliða fræðimennsku geti verið öflug samsetning. Ljóst er þó að árangur af slíku samstarfi réðist mjög af vilja forstöðumanna stofanna til að standa að veiðunum og starfa með minkaveiðimönnum. Undirritaður vill minna á það sem hann hefur áður látið koma fram að jafnframt fækkunaraðgerðum beri að líta á minkinn sem veiðidýr og beina veiðunum eftir föngum á haustin og fyrripart vetrar með það fyrir augum að nýta skinnin. Ekki er átt við að skinn af villimink verði send á uppboð með úrvals loðskinnum, heldur að þau megi hugsanlega nýta í smáiðnaði, sem t.d. framleiddi húfur, kraga og ýmsa minjagripi.

 

Að lokum skal þeirri spurningu velt upp hvort ekki sé tímabært að halda ráðstefnu - sennilega í Reykjavík -um minkinn og áhrif hans á lífríkið. Væntanlega hafa íslenskir vísindamenn nú þegar allmikið fram að færa á þessu sviði.  Til slíkrar ráðstefnu þyrfti einnig að fá erlenda fyrirlesara sem fengur teldist að,  bæði vísindamenn og menn með mikla reynslu af minkaveiðum. Ef vel tækist til hefðum við í höndum verðmæta samantekt um minkinn og áhrif hans á umhverfi sitt.

 

 Stuðst var við grein Karls Skírnissonar og Ævars Petersen í  riti Landverndar, Villt Spendýr, ýmis gögn frá veiðistjóra  og eigin minnispunkta.

 

 Reykjavík 31. október 2001

Haukur Brynjólfsson.

16.04.2005

,, Fiskvinnsla á sjó

Fiskurinn ? fiskimiðin.

 

Sagt er að með frystitogaravæðingunni hafi fiskvinnslan verið færð út á sjó. Það er rétt að því marki að afli þessarra skipa er a.m.k. ekki unninn frekar hér á landi, heldur settur í gáma og fluttur úr landi. Þetta er raunar hráefnisútfluttningur, því sjóvinnslan aðeins frumstig fiskvinnslu og er í því fólgin að hirða flökin af  fiskinum og frysta þau um borð. Öllu öðru: haus, dálki, þunnildum, lifur og slógi er hent aftur í sjóinn. Einnig þeim fiski sem ekki passar í vélarnar í vinnslulínu skipsins. Þar sem flök munu vera um 20 - 25% af heildarþyngd þorsks blasir við að togari, sem landar 300 tonnum af  flökum, hefur í veiðiferðinni dregið a.m.k. 1200 tonn af fiski úr sjó. Mismuninum, 900 tonnum, hefur þá verið verið fleygt fyrir borð á miðunum!  Þessar aðfarir kalla sumir lærðir menn að hafa hámarksarð af auðlindinni !  Þetta er hinsvegar svo glæpsamleg  umgengni um gæði náttúrunnar að það verður að teljast þjóðarskömm að slíkt skuli geta viðgengist. Þegar við myndina bætast svo þau áhrif, sem samþjöppun kvótans til fárra stórútgerða hefur haft vítt um landið, þá er bersýnilegt að lánleysi okkar Íslendinga er átakanlegt.

 

Hér á árum áður var oft  talað af heift og fyrirlitningu um erlend verksmiðjuskip á fiskimiðunum. Þau voru kölluð ryksugur og sögð drepa allt, sem fyrir þeim varð. Á þessum skipum munu mun þó einmitt hafa tíðkast að færa allan afla að landi, m.a. sem mjöl og lýsi. Í því efni  mættu útgerðarstjórar íslensku frystitogaranna hafa þessa fornu fjendur að fyrirmyndum. E.t.v. ættu þeir að huga að rými fyrir mjölvinnslur og lýsisbræðslur í nýjustu glæsiskipunum.

 

Stundum er tæpt á því í fjölmiðlum að erlend samtök umhverfissinna kunni að gera atlögu að fiskveiðum okkar. Það er hreint ekki ósennilegt að Íslendingar geti á næstu árum þurft að bergðast við gagnrýni slíkra aðila á fiskveiðarnar. Þá verður að óbreyttu ekki auðvelt að verja framferði frystitogaranna á miðunum. Rányrkja þeirra og sóðaskapur minnir helst á sagnir af framgöngu vísundaveiðimanna sem herjuðu um sléttur N-Ameríku fyrr á tímum, stráfelldu hjarðirnar en nýttu einungis valda bita úr skrokkunum.

 

Þegar rætt er um togara er nærtækt að velta fyrir sér spurningunni um áhrif botntrolls á fiskimiðin. Vitað er að áratuga togveiðar hafa víða breytt sjávarbotninum og sléttað hann. Hversu stórfelldar eru þessar breytingar og hver eru áhrif þeirra á viðgang fiskistofna?  Ef ekki liggur fyrir nægjanleg vitneskja um þetta þá þarf að afla hennar. Kemur hugsanlega að því í framtíðinni að menn verði að sætta sig við að veiða einungis með aðferðum sem ekki raska botninum?

 

Það hefur verið furðu lítið talað um nýtingu afla og umgengni um auðlindina almennt. Þótt menn hrykkju dálítið við er fjöldi fiskimanna  lýsti  því yfir opinberlega að fiski sé hent og hafi verið hent í stórum stíl á miðunum, þá varð ekki neitt framhald á þeirri umræðu. Augljóslega eru vísundaslátrararnir víða og þeim hentar að hafa þögn um málið. Framsýnir stjórnmálamenn verða rjúfa þessa þögn og knýja fram alvöru umræðu um allt málið. Það er ekki nægjanlegt en láta ekki við það sitja að nefna frákast á fiski svona í framhjáhlaupi þegar gjafakvótakerfið er til umræðu. 

Það ætti að vera aðalsmerki fiskveiðiþjóðarinnar að nýta með sómasamlegum hætti það sem dregið er úr sjó

 

Haukur Brynjólfsson, rafvirki.   

( Birt á vef Samfylkingarinnar 2003).

 

 

 

 

16.04.2005

Auglýsingakastljós.

Auglýsingakastljós.

 

Í kastljósþætti kvöldsins var auglýsingaviðtal við rithöfundinn Guðmund Andra Thorsson um  skáldsögu sem hann  á nú á jólabókamarkaði.Í þættinum var okkur boðið upp á þá visku að samasemmerki hafi verið milli þess að trúa á Sósíalisma og þess að trúa á Sovétkerfið. Þetta er grautarhausaspeki og bull. Fjöldi fólks sem hafði áttað sig ofbeldi Sovétsins trúði - og trúir enn - á þá grundvallarkenningu að allt fólk eigi að hafa jafna möguleika til  að rækta hæfileika sína og njóta þeirra.

Það mætti segja sögu af iðnaðarmanni, sem var boðið að athugað yrði fyrir hann hvort hann gæti fengið ókeypis skólavist fyrir austan tjald. Hann afþakkaði umhugsunarlaust því hann trúði ekki á Sovétið þótt hann tryði á réttlæti Sósíalismanns. Hann vissi einnig að hann gæti ekki setið þegjandi undir lygabulli.

 Vissulega var til fólk, einkum sjálfhverfar  menntaspírur, sem trúði á sovétkerfið og hélt að þar væri sósíalisminn. En tímarnir breytast og mennirnir með; þetta lið, sem gat ekki talað í 3 mínútur án þess að segja Marxismi 5 sinnum,hefur nú alveg gleymt þessu orði en virðast nú helst trúa á eigin hagsmuni. Það streðar við að hanga í elítunni og fá verk sín dásömuð ókeypis  í ríkisfjölmiðlum.

Við þessu væri ekki mikið að segja ef almenningur hefði val um aðgang að fjölmiðlum. En svo er ekki, við skulum kaupa þetta hvort sem við viljum eða ekki. Það verður sannarleg fróðlegt að sjá hve Sjálfstæðisflokkurinn þarf að tefla fram mörgum menntamálaráðherrum áður en við megum ráð því sjálf hvort við kaupum aðgang að þessum ómerkilegheitum eða ekki.

 

Haukur Brynjólfsson, rafvirki.

( Birt í Fréttablaðinu í des. 2003).

 

 

16.04.2005

Tímabærir bakþankar.

Tímabærir bakþankar.

 

Ástæða er til að  taka undir bakþanka Björgvins Guðmundssonar í Fréttablaðinu í dag, 2. maí, þar sem hann efast um að verkalýðsforingjunum sé hollt að vera sjálfkrafa áskrifendur að peningunum okkar, þ.e. félagsgjöldunum, sem renna með sjálfvirkum hætti til stéttafélaganna. Raunar gæti manni orðið á að segja að við ráðum engu um þetta fjárstreymi, slík er fjarlægðin orðin milli fjöldans í félögunum og stjórnenda þeirra. Hvað hefur verkalýðsforustan helst verið að fást við undanfarin ár ? Fasteignakaup ? Að tapa fé úr lífeyrissjóðum? Fyrir utan rauðustrika hitasótt síðustu mánuða hefur helst heyrst frá ASÍ þegar þar á bæ virðist hafa komið upp ótti við að aðrir væru að gera það gott. Eða hafa menn gleymt íhlutun forvígismanna ASÍ í samninga kennara þegar hótað var ófriði á vinnumarkaði ef komið væri til  móts við kennara fram yfir það sem ASÍ var þóknanlegt ? Hvílíkt innlegg  í kjaradeilu - og það úr þessarri átt ! Og hvernig studdi ASÍ á baráttu Sleipnis-manna í fyrra ?   E.t.v. vilja menn bara gleyma því máli.

Fyrir nokkrum mánuðum lýsti núverandi framkvæmdastjóri ASÍ því yfir á opinberum fundi að ekki væri ástæða til að hækka skattleysismörk, en þau eru nú við 67.467 kr. mánaðarlaun fyrir einstakling með fullan persónuafslátt. Framkvæmdastjórinn sagði á sama fundi að í seinustu samningum hefði verið lyft grettistaki til hækkunar lægstu launa, þau eru nú 90.000 kr. á mánuði. Af þeirri upphæð greiðast 9.455 kr. í skatt. Þetta blessar ASÍ og virðist helst hafa áhyggjur af því að launþegar utan ASÍ nái of langt í sinni kjarabaráttu !  Það er sannarlega rétt hjá Björgvin að þessu fólki er ekki hollt að vera sjálfkrafa áskrifendur að peningunum okkar.

 

Haukur Brynjólfsson,

rafvirki.

( Birt í fréttablaðinu 2002).