Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

09.12.2010

Ævintýralegt bull

Mikið skelfing getur maður orðið leiður á daglegum þykjustuleikjum þingmanna -allra flokka, vel að merkja. 

Dæmi um svona leiðindi geta verið ummæli höfð eftir Ögmundi Jónassyni í Fréttablaði dagsins. Honum þykir mikið til um mismuninn á upphæðum Icsave samninganna, hinum fyrri, sem stjórnarliðar, að Ögmundi undanskildum, börðu í gegn um þingið, og þeim sem nú er í boði.Ögmundur tekur þó fram að þótt mismunurinn sé upp á einhver hundruð miljarða, þá sé þetta enginn áfellisdómur yfir þeim sem sömdu í fyrra skiptið. Það má rétt vera og þá á þeirri forsendu að samningamenn ríkisstjórnarinnar hafi þá verið að fást við verkefni sem þeir réðu ekki við, en skort dómgrein til að átta sig á eigin getuleysi. Hinn gríðarlegi mismunur á niðurstöðum þessara tveggja Icsave-samninga er hinsvegar slíkur áfellisdómur yfir framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu á sínum tíma, að henni er ekki sætt án breytinga. Fyrsta skrefið nú ætti að vera afsögn Jóhönnu og Steingríms.


En það er boðið upp á fleiri spekimál á síðum Fréttablaðsins í dag: Þingmaðurinn og Samfylkingarbróðir minn, Magnús Orri Scram, virðist í grein sinni í blaðinu hvetja almenning til þess að standa með sjálfum sér ( orðalag þingmannsins) og henda af sér oki verðtryggingarinnar. Launakrónur og skuldakrónur eigi að hafa sama verðgildi, segir hann. Það er alveg gullsatt. En það er bara ekki við almenning að sakast í þessu efni. Við höfum ekki beðið um verðtrygðar skuldir en óverðtryggð laun. Sökina eiga svikulir þingmenn allra flokka. Þegar verðtrygging var tekin af launum var ákveðið að viðhalda henni á fjárskuldbindingum - um sinn, takið eftir því! Þetta fyrirkomulag átti einungis að vara tímabundið meðan bankakerfið væri að aðlagast. Hið tímabundan fyrirkomulag varir enn, meira en þrjátíu árum seinna, og er nú að kyrkja flestar fjölskyldur í landinu! Þingmenn hafa allan tímann svikist um að afnema verðtrygginguna endanlega.  Þessu hljóta  ráða furstar fjármálakerfisins sem greinilega hafa enn sínar stjórntaugar inn á  Alþingi.

Þau eru víða talsamböndin.