16.09.2009
Af gefnu tilefni sendi ég eftirfarandi athugasemd á síðu séra Baldurs Kristjánssonar en var strax hent þaðan út:
Endemis bull er það, séra Baldur, þegar þú leyfir þér að segja fjölmiðla kynda undir fordóma. Þú ættir að hætta að skamma fjölmiðla fyrir að sinna sínum verkefnum, m.a. með því að segja deili á brotamönunnum. Undanfarin ár hefur innfluttningur fólks af erlendum uppruna verið mjög mikill miðað við fjölda landsmanna. Þessi þróun er bæði jákvæð og neikvæð, óneitanlega fylgja henni vandamál. Ekkert er eðlilegra en að slíkar breytingar kalli á umræðu. Það er vissulega áhugavert að vita hvernig aðfluttir pluma sig í samfélagi okkar. Hver þáttur innflytjenda er í afbrotum er einn þáttur málsins, nú munu um 25% plássa í fangelsum vera upptekin af útlendingum. Þar er ekki einungis um að ræða einhver skipulögð þjófagengi. Almenningur í landinu á fullan rétt á að sjá þessa mynd og þar kemur einmitt að hlutverki fjölmiðla.
En einhver hópur fólks virðist vaða í þeirri villu að það eigi að stjórna umræðu um málefni innflytjenda hér. Og þessi sjálfumglaða klíka virðist ákveðin í að leyfa ekkert nema halelúja skrif um efnið. Öllum neikvæðum athugsemdum er strax svarað með ásökunum um fordóma og rasisma. Þessi þöggunarviðleitni lýsir frekju og yfirgangi og er í raun andstyggileg birtingarmynd fordóma.
11.09.2009
Undanfarið hefur verið gagnrýnt að fólk sé að skrifa nafnlausa pistla á netið.Sumir hafa þó tekið upp hanskann fyrir nafnlausa skribenta og talið að stundum geti þannig komið fram þýðingarmiklar upplýsingar frá aðilum sem verði að skýla sér með nafnleynd. Í einhverjum einstökum tilvikum kann svo að vera. Þau tilfelli munu þó fá.
Athugum hvernig lífi er haldið í samfélagi hræðslunnar, sem einnig hefur verið lýst í þessu samhengi. Jú, það er gert með því að beygja sig fyrir valdinu, búa jafnvel til ógnir og hættur í huga sér, skrifa fremur nafnlaust en að koma fram opinberlega.
Oftast dæma hin nafnlausu skrif sig sjálf; yfirleitt eru þetta kjaftasögur og rógur einhverra lúða sem ekki þora að standa fyrir máli sínu. Menn eiga því almennt að skrifa undir nafni. Á hinn bóginn er alveg fráleitt að farið verði að ritskoða netið eða banna nafnlaus skrif. Netið á að sjálfsögðu áfram að vera frjáls vettvangur til skrifa og skoðanaskipta.
Það er ljóst að skríllinn sem keyrði landið í kaf er að reyna að ná vopnum sínum aftur.
Að baki eru hinar grónu valdaklíkur landsins sem njóta góðs af landlægu dugleysi stjórnmálamanna. Þetta lið kann að þykjast hneykslað á fjármálaklúðrinu, en nýtt Ísland vill það síst af öllu. Það er ástæða til að takast á við þetta lið og ástandið sem það hefur skapað með hörkuumræðu m.a. á netinu. Engin spurning að það getur verið áhrifaríkt.
En við munum ekki reisa nýtt, frjálst opið og heiðarlegt þjóðfélag með nafnlausum skrifum.
11.09.2009
Ég er sammála því að gott er að ljúki geðþóttafleipri seðlabankastjóra út og suður. Nýr seðlabankastjóri vísar fyrirspurnum í formlegan farveg. Um fagmennsku hans að öðru leiti finnst mér erfitt að ræða. Er hann eitthvað annað og meira en kerfiskall á góðum aldri ? Það á eftir að koma í ljós, en ekki leiftrar frumleikinn af byrjun hans í bankanum. Í kastljósi nýlega var Már þessi spurður um peningamálstefnuna sem hann er sagður aðalhöfundur að og hefur virkað svona eins og þjóðin þekkir. Ekki var annað að heyra en hann teldi þetta góða stefnu.
Þegar verðtrygging var afnumin af launum en viðhaldi á fjárskuldbindingum, varaði sá merki hagfræðingur,Gunnar Tómasson við, og taldi um stórkostleg hagstjórnarmistök að ræða - sem rækilega hefur sannast. Er nýr seðlabankastjóri að leita leiða út úr því kerfi? Hef ekki heyrt þess getið.
Staða okkar nú leiðir til þeirrar niðurstöðu að fjármálum okkar hafi löngum verið ráðið af vitleysingum - ruglið semsagt ekki nýtilkomið, en maður gat nú leyft sér að vonast eftir jákvæðum breytingum í kjölfar algjörs hruns.
09.09.2009
Skelfing er ég orðinn leiður á þessu bloggi um þjóðrembu og rasisma. Það er eins og sumir séu að slá sig til riddara með þessu tuði, eða að stappa í sig stálinu: ,,Ég er svo góður og víðsýnn að ég tek mér ekki í munn orðið útlendingur", gætu menn alveg eins sagt. Guð ég þakka þér ........
Það er sérkennilegt að hafa uppi ásakanir um fordóma þótt sumir fjölmiðlar láti þess getið að ofbeldismaður eða þjófur, sem kemst í fréttir, sé erlendur maður. Fólk vill fá þessar upplýsingar, þess vegna eru þær fréttnæmar.
Og það skýtur skökku við að fólk sem er á fullu í þjóðfélagsumræðunni skuli kalla þannig á ritskoðun.
Hvað segja menn um þá staðreynd að hér er nú mun hærra hlutfall manna af erlendum uppruna í fangelsum en sem nemur hlutfalli þeirra af fjölda landsmanna? Er það fréttnæmt, ættum við að ræða hugsanlegar ástæður þess ?
Á þessu eru tvær skýringar mögulegar: Yfirvöld eru svo forhert í þjóðrembu og rasisma að þau leggja sérstaka áherslu á að fangelsa útlendinga. Hinn möguleikinn er að í hópi hingað fluttra séu hlutfallslega fleiri afreksmenn í þjófnuðum og ofbeldisverkum en hjá okkur, fordómafullum Mörlöndum. Ég læt fordómalausum mannvitsbrekkum eftir að ráða þá gátu.
Annars vil ég , eftir því sem lög leyfa, losna við útlenda afbrotamenn og koma þeim í afplánun í þeirra heimalöndum. Ég tími ekki að borga fyrir þá uppihaldið í fangelsum hér, enda dvölin víst ekki gefin. Ég vona þó að hinir sjálfskipuðu vandlætarar túlki ekki þennan grútarhátt minn sem rasisma.