Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

15.10.2006

Hvað er ASÍ að gera ?

    Afstaða  ASÍ-forustunnar til kjaramála er undarleg og með neikvæðum formerkjum. Það er eins og þeir sem sitja og ráða í ASÍ-höllinni  hafi gleymt því hlutverki sem þeim er ætlað af umbjóðendum þeirra, nefnilega baráttu fyrir bættum launum og lífskjörum almennt. Hjá ASÍ tala menn eins og þeim hafi verið falið að stjórna landinu og  beðnir um að sitja sem fastast á ríkiskassanum. Helst hefur heyrst frá ASÍ um launamál  undanfarin ár ef uppi virðist hafa verið ótti um að einhverjir utan ASÍ væru að gera það gott. Þessi neikvæðni er ömurleg og minnir á öfundarpólitíkina sem oft virtist vera helsti drifkraftur margra burðarása í mínum gamla flokki, Alþýðubandalaginu. Enn er í minnum hótanir ASÍ- forystunnar um ófrið á vinnumarkaði ef komið yrði til móts við kröfur kennara fram yfir það sem ASÍ-forystan taldi við hæfi. Nú virðist sem fyrirhuguð lækkun matarverðs sé framkvæmdastjóra ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni, mikið áhyggjuefni. Þar er þó um verulegar kjarabætur að ræða ef af verður. Af reynslu margra undanfarinna ára verður ekki sagt að ASÍ sæki fram til að auka og bæta réttindi okkar launþeganna.  ASÍ gætir  auðvitað margskonar réttinda launþega en þar er að mestu leiti um forna ávinninga að ræða. Forustan hefur í mörg undanfarin ár haft lítið til málanna að leggja í kjarabaráttunni en kosið að halda sig á lygnum sjó.

   Ég  get ekki litið svo á að  framkvæmdastjóri ASÍ sé að gæta minna hagsmuna þegar hann tjáir sig með þeim hætti sem hann gerði um væntanlega lækkun verðs á matvælum.