Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

13.07.2008

Fótboltabullur á Hellisheiði.

Nú hafa meðlimir í samtökum til þess að bjarga Íslandi, eins og það heitir, sett upp búðir á Hellisheiði og undirbúa nú mótmælaaðgerðir gegn virkjunum. Einkum er það víst stækkun Hellisheiðarvirkjun sem þetta fólk ætlar að bjarga okkur frá.

05.07.2008

,,Vor saga geymir ýmsan auman blett"

Hælisbeiðandinn Paul Ramses hefur verið handtekinn og fluttur úr landi     - til Ítalíu -fjölskyldunni sundrað og maðurinn hugsanlega settur í lífshættu. Íslensk stjórnvöld hengja sig í stífustu formreglur og finna  þannig leið til að losa sig við flóttamann og koma sér hjá því að taka umsókn hans til úrskurðar. Þessi aðferð eru ábyggilega samkvæmt bókinni, allt kórrétt og ekkert upp á embættismenn að klaga. En  kringumstæður þess fólks sem nú líður fyrir kalda reglustífni hrópa á skilnig og  mannúð.

Ég held því ekki fram að við eigum að taka við hverjum þeim sem hingað vill koma. Það er full ástæða til þess að vera varkár í þeim efnum, en við eigum að hætta að nota okkur aðstæður sem eru þannig að við getum umsvifalaust losað okkur við hvern þann flóttamann sem sækir hér um hæli. Við eigum að taka um það pólitíska ákvörðun að hverfa frá þeirri lítilmótlegu stefnu og fjalla í framtíðinni um mál þeirra hælisbeiðenda sem sem hingað leita. 

Nú er uppi ótti um að Ítalir sendi Paul Ramses til síns heima, sem er í Kenía. Fari svo er hann sagður í beinni lífshættu. Það er þá því miður ekki í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld stefna hælisbeiðanda í voða. Á fjórða áratug síðustu aldar, í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar, ráku íslensk stjórnvöld þýska borgara af gyðinglegum uppruna úr landi og sendu þá beint í klær nasistaböðlanna. Seinna, þegar afdrif þessa fólks voru rakin, kom í ljós að sumt af því lét líf sitt í útrýmingarbúðum Nasista.
Getum við Íslendingar þvegið hendur okkar og  alfarið neitað ábyrgð á  örlögum þeirra einstaklinga?  Það er að minnstakosti ákaflega ólíklegt að fólkið hefði verið myrt ef íslensk stjórnvöld hefðu nýtt það tækifæri sem þau vissulega höfðu til þess að vernda fólkið með því að veita því skjól hér á landi.

 ,,Vor saga geymir ýmsan auman blett,/ sem illa þolir dagsins ljós að sjá".*  

Auðvitað viljum við gleyma aumum blettum í fortíðinni, en þennan þátt sögunnar verðum við að muna meðan enn er hætta á að kuldalegar ákvarðanir stjórnvalda hér stofni lífi flóttamanna í hættu.

 * Steinn Steinarr:  Á rústum beitarhúsanna.........