Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

20.11.2012

Evrópuáróður

Sá vitnað í ræðu sem utanríkisráðherra Eistlands hélt í Þjóðmenningarhúsinu nýlega.

Ef rétt er eftir manninum haft þá finnst mér ræða hans nálgast það að vera óviðeigandi afskipti og tilraun til þess að blanda sér í málefni Íslendinga. Við fullyrðingu um að við séum Evrópuland hljótum við að setja spurningamerki  í hvert sinn sem við horfum á hnattlíkan. Það eru vissulega ekki landfræðilegar ástæður fyrir því að við tilheyrum Evrópu. Reyndar tilheyrir vesturhluti Íslands Ameríkufleka jarðarkúlunnar þótt austurhlutinn, ca 1/3 landsins, sé hluti af evró-asíuflekanum. Til Ameríku höfum við sótt tækni og hagsæld á 20. öld. Það er hreinlega saknæmt, í þeim skilningi að það gengur gegn hagsmunum okkar, hve stjórnvöld hafa forsómað tengsl við Norður Ameríku seinustu árin. Í stað þess að sækjast eftir aðild að NAFTA er stritast við að koma öllum eggjunum í eina körfu Evrópusambandsins. Hagsmunir okkar liggja augljóslega í því að hafa  viðskipti bæði við Ameríkulönd og Evrópu án þess að lokast fyrir innan tollmúra. Þannig nýtist okkur lega landsins á jarðarkúlunni. Við höfum fríverslunarsamning við Kanada, sem fæstum landsmönnum mun þó kunnugt um, enda gæta stjórnmálamenn þess að nefna ekki þann samning en lofsyngja stöðugt Evrópuvandamálin.