Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

02.05.2011

Ísbjarnabull

Enn er ruglað um ísbirni, sumir tjá nú harm sinn vegna dráps á alfriðuðu dýri, eins og sagt er. Sannleikurinn er sá að fella má björn sem gengið hefur á land og fólki eða fénaði er talin stafa hætta af, eins og segir í lögunum. Ísbjörn sem sem kominn er á land, langt frá bráð sinni, sem er selur á ísi, er hættulegur. Þetta vita Grænlendingar, fólk á Svalbarða og aðrir sem til þekkja. Reyndar er það svo að allar þjóðir umhverfis Norðurheimskautið taka sér veiðikvóta á ísbjörn. Seinast er ég vissi var árlegur kvóti Grænlendinga 150 dýr á ári, en talið var að raunveruleg tala felldra ísbjarna í landinu væri 200 dýr. Að krefjast þess að fé sé eytt í að fanga hér flækingsbirni og flytja til baka, á veiðilendur Grænlendinga, er fáránlegt.

Stjórnvöld eru að taka sér vald sem þau hafa ekki samkvæmt lögum ( ekki alveg einsdæmi), er látið er í veðri vaka að ráðherraleyfi þurfi til þess að fella björn sem hér hefur gengið á land. Ákvæði um ísbirni er að finna í 16.gr. veiðilaganna, nr.64 1994.

16. gr. Hvítabirnir.
Hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi, sbr. þó 3. mgr.
[Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.]1)
Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af.
Hafi hvítabjörn verið felldur skv. 3. mgr. skal það tilkynnt umhverfisráðherra án tafar og getur hann þá krafist þess að björninn verði afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað.


Takið eftir 3. lið greinarinnar en erfitt er að sjá að annað geti átt við þegar björn hefur gengið á land. Það þarf því ekkert ráðherraleyfi til að fella slíkt dýr. Það er líka mál til komið að Umhverfisráðuneytið geri skattgreiðendum grein fyrir útlögðum kostnaði vegna ísbjarnabullsins undanfarin ár. Hvers vegna á Náttúrufræðistofnun að kryfja hvert ísbjararhræ sem hér rekur á fjörur? Hvað á að rannsaka? Hvort dýrin hafi fjórar lappir og dindil?