Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

30.10.2011

Elítusamfélag

   Á Íslandi er mikið elítusamfélag þannig hefur það verið lengur en elstu menn muna.Fyrir daga internetsins hafði elítan um sig margfaldan varnarmúr. Það er ekki víst að allir átti sig á því hvernig umhverfið var en hér voru einungis ríkisreknir fjölmiðlar. Ríkisreknir segi ég vegna þess að til viðbótar við hið háheilaga einokunarríkisútvarp, stöðugt þjakað af menningarpólitísku harðlífi, var  dagblaðaútgáfa fjórflokksins, sem auðvitað var öll á styrkjum. Á fyrstu árum ríkissjónvarpsins þéruðu lotningarfullir fréttamenn þess ráðherrana og önnur stórmenni í viðtölum, og það heyrði víst til algjörra undantekninga að ráðherra fengi óundirbúna eða óþægilega spurningu. Flokksblöðin gættu þess að birta einungis þóknanlegt efni.  

   
   Þetta var hinn margfaldi varnarmúr elítunnar og þótt í hann kæmu glufur og ímislegt jákvætt gerðist í fjölmiðlun hjá okku fyrir tilkomu internetsins, þá var það fyrst við tilkomu þess að byltingin varð sem hreinsaði sviðið.

  
   Nú stendur hin þrígilda elíta frammi fyrir því að Jónar og Gunnur landsins hafa ekki einungis skoðanir á mönnum og málefnum heldur geta fyrirhafnarlítið tjáð sig opinberlega, jafnvel sagt höfðingjunum til syndanna. Til að bæta gráu á svart er ekki víst að allir sem eru að skrifa hafi lært setningafræði í MR. Það hlýtur að vera helvítlegt að þurfa að þola þetta, en ekki er um annað að gera.

   Biskupinn yfir Íslandi á í erfiðum málum, hann gerði mistök og sennilega brast hann kjark til að taka á málum á réttum tíma. Enn og aftur: það er hægara um að tala en í að komast, og persónulega hef ég samúð með manninum Karli vegna stöðunnar, en það er tilgangslaust fyrir hann að reyna að vanda um við bloggheima. Það vegur ekki þyngra en þegar þingmaður gólar út í samfélagið og heimtar virðingu. Það þarf að vinna til virðingar: fordæmið eitt hefur gildi.