Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

11.03.2008

Enn um flugvöll í Reykjavík

Fréttamaðurinn Sigmundur Ernir er stórorður í pistli  um flugvallarmál á Vísi.is Stefán Friðrik Stefánsson hælir honum fyrir framlagið og telur hann vera sendiherra Akureyrar hér fyrir sunnan.

Það getur vel verið að Sigmundur Ernir sé sendiherra Akureyrar í Reykjavík. Nóg er a.m.k. andskotans montið samanber pistil hans um flugvallarmál í Reykjavík. Áður en þessi meinti sendiherra fellur afturyfir sig á herðablöðin af eintómri hamingju yfir eigin ágæti, ætti hann þó að rifja upp fyrir sér að það er borgarstjórnin í Reykjavík sem hefir skipulagsvaldið hér, ekki bæjarstjórn Akureyrar. Þótt sú merka samkunda hafi nýlega ályktað að flugvöllurinn ,,eigi að vera áfram í Vatnsmýri'', þá svaraði ekki kostnaði að senda það plagg suður yfir heiðar. Það er einmitt þetta orðalag frekju og monts sem dæmir slíkt lið úr leik þegar kemur að því að ræða flugvallarmál höfuðborgarinnar af viti. Samkvæmt því á flugvöllurinn í Reykjavík bara að vera áfram í Vatnsmýrinni eins og bæjarstjórnin á Akureyri hefur sagt.

Ég ætla ekki að segja hvar flugvöllurinn ,,eigi að vera'' en lýsi yfir ánægju með það að Hólmsheiðin er ábyggilega út úr myndinni. Hef enda aldrei litið á þá staðsetningu sem raunverulegan valkost, heldur ómerkilegan leikþátt settan upp af þeim sem hafa viljað koma í veg fyrir að flugvellinum yrði fundinn nýr staður.

Jafnframt lýsi ég þeirri von minni að innan fárra ára verði hafin bygging nýs Reykjavíkurflugvallar á landfyllingu á og við Löngusker. Þar væri völlurinn í veðursælli nálægð við miðborgina. Sú staðsetning er ekki einungis heppileg fyrir héraðshöfðingja sem hingað koma til þings, sem vissulega skiptir máli, heldur er hún í samræmi við þá uppbyggingu sem nú er í gangi í borginni. Þar hefur hótelum verið stórfjölgað á síðustu árum en tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð eru í byggingu eins og alþjóð veit.

Af þessum ástæðum, meðal annars, þurfum að hafa flugvöll hið næsta miðborginni. Nýr Reykjavíkurflugvöllur þarf að geta tekið við flugvélum þótt komið sé kvöld án þess að ró borgarbúa sé raskað. Hlálegt dæmi um Vatnsmýrarruglið er nýlegt útspil samgönguráðherra er hann talaði um að hækka lendingargjöld til þess að bægja smáþotum frá vellinum á kvöldin. Jú, endilega að hafa flugvöll áfram í Vatnsmýrinni en stugga frá honum flugvélum, fyrir alla muni.

Flugvöllur í Vatnsmýri er alveg ósamrýmanlegur fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu sem þegar er hafin með byggingu yfir Háskólann í Reykjavík. Hagsmunirnir af því að nýta allt svæðið fyrir byggð, samanborið við að hafa þar flugvöll áfram, eru svo yfirgnæfandi að gegn því verður ekki staðið til lengdar.

04.03.2008

Miðvikudagsfundur

Að loknum aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjavík, þ.27. febr. sl., var haldinn um margt ágætur miðvikudagsfundur á Hallveigarstígnum.

Tveir ungir og vaskir þingmenn fóru yfir stjórnmálastöðuna; viðskiptaráðherrann, Björgvin Sigurðsson, leit nokkuð til framtíðar en varaformaðurinn, Ágúst Ólafur, hafði á hraðbergi lista yfir hin góðu mál sem Samfylkingin heldur fram í ríkisstjórninni. Það var bjartsýnivekjandi lestur, svo langt sem hann náði. Greinilegt að margt gott er í pípunum.

En það eru blikur á lofti í efnahagsmálum og óhjákvæmilegt var að geta þess einnig.

Mér varð hugsað til áhrifa verðtryggingarinnar á efnahag heimilinna þegar verðbólgan fer af stað, eða öllu heldur eykst til muna, hún er þegar komin á skrið. Af þessu gefna tilefni spurði ég ráherrann um hugsanlegt afnám verðtryggingar af lánum heimilanna og minnti á þá staðreynd að þegar vertrygging var afnumin að launum en viðhaldið á fjárskuldbindingum, átti það fyrirkomulag að vera tímabundið. Það tímabundna ástand hefur nú varað í ein 25 ár ! Við spurningunni fékkst - eins og ég hafði svosem búist við - hið hulduhrútslegasta svar: - Þarna verðum við að fara varlega, engar kollsteypur, enga byltingu. Sem sagt - ekki neitt !

En því miður er hætt við að kollsteypur séu fram undan hjá mörgum íbúðakaupendum á næstunni, einmitt vegna þess að ekki stendur til að gera neitt í málinu. Í þágu hverra á að fara svona varlega þegar kemur að verðtryggingu á lánum almennings ? Ættu ekki okurvextir að duga bönkum og öðrum fjármagnseigendum?

Mér blöskrar þetta kjarkleysi og skortur á frumleika, ef það er þá hægt að líkja því við frumleika að standa við gefið loforð. Launþegar hafa verið sviknir í þessu verðtryggingar máli. Því var ekki mótmælt mjög kröftuglega á sínum tíma að hætt var að vertryggja laun. Sennilega vegna þess að menn vildu þá flest tilvinna ef takast mætti að koma efnahagsmálum okkar í vitrænt horf eftir að eitthvert hroðalegasta samansafn skussa sem um getur hafði stjórnað landinu um hríð. Ég hugsaði a.m.k. þannig og þótt mér litist að vísu bölvanlega á að verðtryggingu væri ekki um leið lyft af fjárskuldbindingum, þá fannst mér einnig að slíkt væri svo augljóst réttlætismál að ekki kæmi annað til greina en við það yrði staðið innan skamms. Ráðamenn þjóðarinnar hlutu að meina það sem þeir sögðu.

Það stóralvarlega, sem snertir okkur nú, er sú framtíðarsýn að verðtrygginging á lánum ásamt okurvöxtum muni á næstu mánuðum og árum leggja í rúst efnahag og hamingju fjölda venjulegs launafólks sem hefur verið að koma sér upp húsnæði.

Vonandi stígur þá ekki fram einhver kjaftgleiður stjórnmálamaður og lætur að því liggja að menn hafi reist sér hurðarás um öxl.

Ráðamenn koma koma og ráðamenn fara en Alþingi blívur og þess er ábyrgðin.