Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

16.08.2011

Júpiter

Happafleyta

Í landfyllingu við Suðurtanga á Ísafirði er skrokkur togarans Guðmundur Júní ÍS 20 urðaður. Guðmundur hafnarstjóri segir að hann sé undir gámaportinu sem þar er.

 
Þetta skip hét upphaflega Júpiter GK 161 og var byggt í Beverlay á Bretlandi árið 1925 fyrir útgerðarfélagið Belgum. Einn af aðaleigendum þess félags var Þórarinn Olgeirsson, 1883 - 1969, togaraskipstjóri, útgerðarmaður og seinna ræðismaður Íslands í Hull og Grímsby. Þórarinn tók við Júpiter nýjum og var með hann þar til í desember 1929  er Tryggvi Ófeigsson, 1896 - 1987, tók þar við skipstjórn. Þórarinn og Tryggvi höfðu þá, ásamt fleirum stofnað Júpiterfélagið, útgerðarfélag sem þeir ráku saman þar til Þórarinn dró sig úr útgerð hér á landi.

 

 




       
        Guðmundur Júní stendur í fjörinni við Suðurtanga á Ísafirði, sennilega uppúr 1960.
        Ljósmynd: Sæmundur Þórðarson.

            
         Við höfum verið að velta því fyrir okkur, nokkrir gamlir strákar, hvort mögulegt kunni 
að vera að grafa dallinn upp, að hluta  a.m.k.,og ná vél og katli upp á yfirborðið og hafa þessar gömlu græjur til sýnis. Sem kunnugt er þá klikkaði fiskveiðiþjóðin á því að varðveita einn nýsköpunartogara sem safngrip. Útgerðarsnillingunum hefur víst ekki veitt af brotajárnsverðinu í taphítina. Leifarnar af Guðmundi Júní geta auðvitað ekki bætt þessa vöntun, enda ekki um nýsköpunartogara að ræða, en sé þarna aðgengilegur vélbúnaður úr gufuskipi og ekki í verra ástandi en svo að hægt sé að hreinsa tækin upp og setja á safn, þá má ekki sleppa því tækifæri. Þetta mál þarf að kanna. Sé ástand flaksins þannig að hugmyndin sé raunhæf, þá ættu að vera hæg heimatökin hjá Ísfirðingunum því skipið er urðað skammt frá safnasvæði
bæjarinns.    

        
      
        
 Á leið til Bretlands með ísfisk? Mynd tekin af  ljósmynd  í Tryggvasögu, þar sem ljósmyndara er ekki getið. 
   

   Júpiter var 394 tonna skip, 147 ½ fet á lengd, breiddin 25 fet. Hann var með 700 ha gufuvél, auðvitað kolakynntur eins og  allir togarar þess tíma og gleypti 10 - 15 tonn af kolum á sólarhring á veiðum eða siglingu. Tryggvi kallaði hann kolahák og hafði löngum áhyggjur af eyðslunni.Við hönnun Júpiters var sóst eftir að fá gangmikið skip sem jafnfram væri öflugt togskip. Það gekk eftir, en Júpiter var ansi blautur enda valt hann lítið. Tryggvi Ófeigsson var skipstjóri á Júpiter þar til hann fór í land til að gerast forstjóri útgerðarinnar, en það var í ágúst 1940. Þá tók Bjarni Ingimarsson, 1909 - 1989, við Júpíter. Hann varð frægur aflamaður og farsæll stjórnandi og var með skipið til ársins 1947, er hann færði sig yfir á  Neptúnus. Eftir það er lítið minnst á gamla Júpiter í Tryggvsögu. Þó hafði skipið reynst útgerðinni hin mesta happafleyta. Á stríðsárunum, 1940 - 1945 var Júpiter siglt 78 sölutúra með ísfisk til Bretlands, eða meira en 15 túra á ári að meðaltali. Þetta 394 tonna skip var yfirleitt með 200 tonna farm í þessum ferðum, mest 220 tonn segir Tryggvi.

 


       
           

Aðgerð um borð í Júpiter. Greinilega ísfiskstúr og  menn hafa ekki sett upp borð heldur bogra í kössunum og kútta hver fyrir sig; allt á höndum, ástæðulaust að hlífa sér og kallinn sjálfsagt fráneygur í glugganum. Mynd tekin af ljósmynd í Tryggvasögu, þar sem ljósmyndara er ekki getið.

       Varla hefur verið lagt upp i siglingu til Bretlands með minna en 60 tonn af kolum, trúlega hafa vatn og kol verið um 90 tonn í upphafi ferðar, svo ekki er furða að Júpiter ,,færi stundum  djúpt", eins og það er orðað í Tryggvasögu. En engra óhappa er getið í þessum siglingum og Júpiter var með mest aflaverðmæti yfir flotann á stríðsárunum og átti lengi sölumet sem sett var árið 1943. Salan var upp á 18600 sterlingspund og hvernig sem gengi pundsins hafði þróast frá 1925, þá er skemmtilegt að setja þá upphæð í samhengi við verðið á Júpiter nýjum, en hann kostaði rúmlega 20 þúsund pund, samanber ævisögu Þórarinns Olgeirssonar. Varla hefur útgerðin grætt á öðru meir en rekstri þessa togara þegar best lét, og ljóst er að gamli Júpiter hefur verið afskrifaður mörgum sinnum. Aflamaðurinn Bjarni var oft ekki nema viku að fiska í skipið. Samantekt sýnir að fyrstu 6 árin sem hann var með Júpiter var hann að meðaltali 8 sólarhringa að fiska í hverja söluferð. En hann fékk ekki að sigla með Júpiter á stríðsárunum; Tryggvi þvertók fyrir að leggja svo verðmætan fiskimann í slíka hættu. Haft var eftir honum að hægt væri að fá annan Júpiter, en ekki annan Bjarna. Svo það var ráðinn sérstakur siglingaskipstjóri til að stjórna skipinu í söluferðunum.   

   Ekki hef ég getað fundið fyrir því  heimildir hvenær Tryggvaútgerðin seldi gamla Júpiter, en það hefur varla verið seinna en 1950. Kaupandi hefur þá væntanlega verið Ísfell hf. á Flateyri, en aðaleigandi fyrirtækisins á þessum árum var Einar ríki Sigurðsson frá Vestmannaeyjum. Hann hefur þá  gert skipið út undir nafninu Guðmundur Júní ÍS 20 til ársins 1960 (?),  er útgerð þess lauk, 35 árum eftir að það flaut í fyrsta sinn við skipasmíðastöð í Bretlandi.

 

   En 1960 hafði útgerð Tryggva Ófeigssonar eignast nýjan Júpiter. Það var mikill barkur; 804 tonn, smíðaður í Bremenhaven 1957, var upphaflega gerður út frá Neskaupstað og hét þá Gerpir. En það er nú allt önnur saga.  

 


( Heimildir fyrir þessari samantekt er flestar að finna í ævisögum þeirra skipstjóranna  Tryggva Ófeigssonar og Þórarins Olgeirssonar.)

 

 



                            Góðviðristúr við Grænland veturinn 1959.

Veturinn 1959 var ég kyndari á Guðmundi Júní ÍS 20 ( gamla Júpiter). Þá var búið að breyta úr kolakyndingu í olíukyndingnu. Ekki hef ég getað fundið neitt um það verk eða hvenær breytingin var gerð, en það hlýtur að hafa verið löngu áður, sennilega meðan skipið var enn í eigu Júpiterútgerðarinnar. Fyrir vélaliðinu á Guðmundi júní fór Jón Albertsson, fyrsti meistari. Olav Öyahals var annar vélstjóri og kyndarar voru Haukur Bergsteinsson, lærður málmsteypumaður, nú hálfáttræður sjósundsgarpur, og svo náttúrlega yðar einlægur eigandi síðunnar, nú frekar prúður eldri borgari. Skipstjóri var Júlíus Sigurðsson frá Hafnarfirði, stórskemmtilegur karl, fyrsti stýrimaður Grettir, man ekki föðurnafnið, en hann var seinna með Steingrím Trölla. Þarna voru líka  eftirminnilegir Skúli kokkur og Ólafur Halldórsson, loftskeytamaður. Þennan vetur voru allir hásetar, bátsmaður og annar stýrimaður á Guðmundi Júní Færeyingar. Þeir mynduðu sitt eigið samfélag um borð svo að kynnti við þá urðu ekkert mikil. 
Seinni part vetrar fórum við á Austur Grænland


          

             
                                                                        og hófum veiðar
       


          

                                                     í ágætu veðri.


            

                      En svo brast á með slíkt góðviðri að frívaktin fór að spóka sig;
                   Olav Öyahals annar vélstjóri á brúarvængnum.

      
         

         Skúli Einarsson, kokkur, mundaði nálina og þóttist vera netamaður. Skúli var fínn  kokkur og léttur í lund. Hann gerðist formaður síns stéttarfélags á efri árum og býr nú á Hrafnistu þar sem hann heldur sig ríkmannlega, hálf níræður.

        

              Ólafur Halldórsson loftskeytamaður var töffaralegt ljúfmenni sem tók rosalega í nefið.

         

                                              Sjálfur ákvað ég að sitja fyrir á hafísjaka

        

                                            en Skúli kokkur fór ekki alla leið.


                                                 Mislukkað spaug
    Eitt sinn, meðan verið var að taka trollið og gera við eitthver smávægilegt rifrildi, vorum við á reki í íshröngli og voru sumir jakarnir alveg við skipshliðina. Þeir voru farnir að bráðna og höfðu fengið hin fjölbreytilegustu form, sumir voru nánast eins og risavaxnir bryggjupollar í laginu. Svo okkur datt það í hug, tveimur gárungum, að skemmtilegt gæti verið að hengja nettan jaka aftan í dallinn og láta kallinn tosa honum um hafflötinn um stund, á meðan hann væri að skófla fiskinum í trollið. Það gæti líka verið fróðlegt að sjá upplitið á mönnum þegar þeir færu að spá í hvers vegna ísjaki veitti okkur eftirför. Og það var slíkur galsi í mannskapnum að við drifum í þessu, komum trossu á vel lagaðan jaka og settum fast aftast í ganginum bakborðsmegin. 
   Færeyingarnir voru ekki með neinn hamagang við vinnu sína  á dekkinun  í góða veðrinu, en ,,kóngur vill sigla..." og þar kom að Júlíus skipstjóri hringdi á fulla ferð áfram til að láta trollið fara. Ekki stóð á félögum okkar í vélinni: þeir létu hann strax hafa 700 hestöflin svo að skrúfan hamaðist, en samt náði dallurinn ekki eðlilegri ferð. Ísjakar leyna á sér sem kunnugt er, og þessi var greinilega umfangsmeiri en við höfðum séð fyrir. Stroffan var svo strekkt að bleytan spýttist úr henni en jakinn var vægast sagt tregur í taumi. Hér stefndi í óklárt troll og stórhafarí, við urðum skíthræddir og sáum þann kost vænstan að losa okkur strax við jakann. Það var ekki hættulaust en tókst, og trossan þaut eins og stórskeyti afturundan skipinu þegar hún losnaði. Þar tapaði Einar ríki góðum spotta, en gamli barkurinn náði sér á skrið, hlerarnir skullu í sjóinn og trollið var skverað án vandræða. Og þegar farið var að slaka sáum við spaugarirnir að hættan var liðin hjá svo að við laumuðumst inn í borðsal að fá okkur kaffi og velta því fyrir okkur hvernig í andskotanum okkur gat dottið þessi vitleysa í hug. 





                             Svo var haldið heim á leið til að landa á Flateyri.

10.08.2011

Lögfræðileg hólmganga

Í grein í Fréttablaðinu í dag tekur Sigurður Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, professor emeritus, Sigurð Líndal, í bakaríðið og segir hann hafa lapið ganrýnislaust upp texta noskra lögspekinga og birt sem eigin hugsun í riti sínu. Sem sagt ekki getið heimilda, svo ekki sé sterkar til orða tekið. Og það er eins og hæstaréttarlögmanninum finnist hann þurfa að snúa hnífnum í sárinu, því í framhaldinu leiðir hann getum að því að lagaprófessorinn fyrrverandi hafi sjálfur aldrei náð að þroskast til ,,sjálfstæðrar lögfræðilegrar hugsunar", fræðimennska hans sé ,,sýndarmennska".

Hætt er við að nú sé nettur fróðleiksmaður á tánum af pirringi vegna slíkra ásakana, spurning hvað Aristóteles hefði gert. Fróðlegt verður að sjá framhaldið hjá þessum lærðu mönnum, en stóra spurningin er hvort upp sé komið nýtt vandræðamál varðandi meðferð háskólaprófessors á heimildum.

04.08.2011

Smádýrasyrpa



Í strætóskýli við Norðurfell var þessi könguló að fara í mat.



Hún var ansi skuggaleg þar sem hún nálgaðist nestið sitt, innpakkaða flugu, gott að kvikindið er ekki á stærð við kind, það væri nú meiri ógnvaldurinn.
 
              

Þrátt fyrir truflun og flassblossa tók dýrið til matar síns, en þá var nú ekki hægt að stilla sig um að pota dálítið í ófétið með puntstrái. Köngulóin brá við hart, hljóp eftir netinu



        og var ótrúlega fljót að koma sér fyrir úti í horni þar sem hún lét lítið fyrir sér fara.

            

                                          Sennilega er hún þó búin að éta þetta grey núna.






                      Á hlýjum degi var fjöldi af lirfum í grasinu í Elliðaárdalnum



                                 og þessi ætlaði að verða fiðrildi þegar hún yrði stór

               

en hætturnar voru margar; eftir malbikinu á göngustígnum hljóp langleggur í veiðihug og það var lirfuveisla hjá smáfuglunum.









                   Þreytuleg hunangsfluga kom inn um svalaglugga í rigningunni,



                               hún hresstist snarlega við dropa af sykurvatni,
               

                                                   sat um stund á naglaþjöl

          

                                 en ákvað svo að halda áfram sínu amstri og flaug á brott.



                Það var líka annríki hjá flugunum í blómunum vestur við Skerjafjörð

         

                             og þessi puðaði áfram, gömul og slitin með trosnaða vængi.