Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

12.02.2013

Frumvarp til náttúruverndarlaga

Undanfarið hefur komið fram réttmæt og vel rökstudd gagnrýni á frumvarpið til náttúruverndarlaga. Ég tek undir þá gagnrýni, vísa til hennar og þarf svo sem engu að bæta þar við.

Þó er rétt að nota tækifærið og árétta að ekki er sama sem merki á milli þess að hafa samráð og þess að óska eftir umsögnum þegar ekki er tekið tillit til innsendra umsagan.

 

Sumir telja frumvarðið hroðvirknislegt.  Það er a.m.k. óhætt að segja að skilgreiningakaflinn er ekki mikils virði. Þegar hafist er handa við að skilgreina þá hafa menn sagt A sem aftur kallar á B. Þarf af segja meira um þetta atriði?

 

Ákvæðin um tjöldun og mismunandi ,,réttarstöðu" þess viðlegubúnaðar sem ferðamenn nota, væri auðveldast að kalla vitleysu, en svo einfalt er málið ekki, heldur skín þarna í gegn sú ofstjórnunarárátta sem einkennir alla þessa lagasmíð.

Af sama toga eru ákvæðin um akstur á snjó og jöklum.

 

Ég tel að í þessu frumvarpi sé almannaréttur markvisst sniðgenginn. Í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu og orðið almannaréttur kemur ekki fyrir í markmiðsgrein frumvarpsins. Þar er talað um að tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar, en af lestri frumvarpsins má ljóst vera að slíkar ferðir á fólk að fara á forsendum kontóristanna í Umhverfisráðuneytinu. Þá hlýtur virðing höfunda frumvarpsins  - að ég ekki segi þjónkun þeirra  - við landeigendur og umráðamenn lands, að vekja sérstaka athygli.

 

Fyrir skattgreiðendur gæti það verið fróðlegt og áhugavert að sjá tölur um kostnað vegna þessarrar mislukkuðu lagasmíðar. Sjá hvað almenningi er gert að greiða fyrir umsagnir og fundasetur allra líffræðimenntuðu embættismannanna, umhverfisfræðinganna, umhverfisstjórnunarfræðinganna og fleiri sérfræðinga sem komið hafa að málinu.