Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

18.04.2007

Tækifæri til endurnýjunar.

Stórbruni í Reykjavík; gömul bárujárnsklædd hús við Austurstræti og Lækjargötu verða eldi að bráð. Menn fóru strax að tala um menningar og byggingarsögulegar minjar sem nú þurfi að endurreisa. Vonandi sést  mönnum ekki yfir möguleikann á endurnýjun í hjarta borgarinnar. Möguleikann á flottum nútíma arkitektúr - nýjum húsum úr nýjum efnum.
Húsunum sem brunnu er búið að breyta hvað eftir annað bæði að utan og innan. Sennilega er lítið eftir af upprunalegri gerð þeirra. Hvert er  þá varðveislugildið ?
Ef til vill má líta á missi þessara húsa sem tækifæri til andlitslyftingar í miðborginni.
Vonandi íhuga bæði eigendur húsanna og skipulagsyfirvöld þetta tækifæri vandlega.

18.04.2007

Reykjavíkurflugvöllur - umræður á Ísafirði.

Það  var athyglisvert að fylgjast með ummælum um Reykjavíkurflugvöll sem féllu á kosningafundi NV-kjördæmis á Ísafirði í gærkvöld. Menn voru að velta því fyrir sér hvort rétt sé að  byggja samgöngumiðstöð við völlinn þegar gert er ráð fyrir að  hann verði færður innan tíðar. Allir frambjóðendur sem tjáðu sig virtust  vera á því að flugvöllur eigi að vera í Reykjavík - sem var gott að heyra - og nefndu sumir Hólmsheiði og Löngusker. Fulltrúi VG. tók það fram að staðsetning flugvallarins væri skipulagsmál Reykjavíkur.  Það er auðvitað alveg rétt en reyndar óvenjulegt að heyra stjórnmálamann af landsbyggðinni viðurkenna þau sannindi. Enda  fengum við líka að sjá á fundinum þessa venjulegu frekju gagnvart Reykvíkingum. Áform samgönguráðherrans um byggingu flugstöðvar er vissulega þáttur í baráttu hans fyrir því að halda vellinum áfram í Vatnsmýrinni, hvað sem Reykvíkingar sjálfir segja um það mál. Enda
gerðist sá sjaldgæfi atburður á fundinum að ráðherrann sást brosa út að eyrum. Það gerðist þegar Kristinn H Gunnarsson botnaði þessa umræðu með því að segja að víst ætti að byggja samgöngumiðstöðina því flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Það ætti ,, ekki að hreyfa  við honum"

Þannig vaða þessir frekjudólgar áfram og fljóta  inn á þing, ekki endilega á eigin verðleikum heldur á misvægi atkvæða í landinu.

Ég minni á eldri pistla hér á síðunni (www.123.is/hbryn) um flugvöllinn og   flugstöðvarsmiðinn.

14.04.2007

Glæpsamleg vitleysa.

Nýlega var í Mogganum viðtal við kvótamiðlara sem upplýst að verð á þorskkvóta væri komið í 190 kr/kg og myndi væntanlega fara í 200 kr fljótlega vegna lítils framboðs.  En hvað er þorskkvóti ? Ekki er víst að allir séu með það á hreinu enda lýsir  hugtakið kerfi sem er glæpsamlega vitlaust. Jú, að kaupa kvóta er  að kaupa tiltekið magn af þorski syndandi í sjónum. Sá sem hefur hreppt hnossið - á 190kr kílóið - getur þá farið á sjó, og veitt þorskinn og selt hann á markaði fyrir 276kr/kg  en það var markaðsverðið þegar þetta dæmi var tekið. Mismunurinn til að standa undir kostnaði við veiðarnar; báti, veiðarfærum og launum manna, hefur þá verið 86kr/kg. Eins gott að eitthvað hafi fengist fyrir lifur og slóg því verð á markaði miðast við slægðan fisk.

Það er vel hægt að stjórna fiskveiðum án þess að leyfa braskið með kvótana. En þjóðin var plötuð í þegar kerfinu var komið á því  það var alltaf ætlun höfunda þess, í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, að braska með veiðiheimildirnar. Þarna hefur hver ógæfan rekið aðra. Með  heimild til framsals  og veðsetninga  kvótans  hefur verið þróað  kerfi sem er okkur til skammar: Leiguliðinn dregur fisk úr sjó og selur á markaði fyrir 86kr/kg meðan sægreifinn situr á sínum kontór og hirðir 190kr fyrir hvert kíló.

Hvað er eignilega að okkur að við skulum hafa látið menn komast upp með að búa til slíkt kerfi og starfrækja það í áratugi ?

Og hvernig má það vera að þetta mál skuli ekki vera á dagskrá stjórnmálaflokkanna sem halda nú landsfundi sína með pompi og prakt ?

09.04.2007

Mótsagnir og blekkingar


Stjórnmálamenn eru upp með sér af þekkingu ,,okkar" og færni í orkurannsóknum og orkuvinnslu.Hinir miklu vinir náttúrunnar í hópi stjórnmálamanna; Vinstrigrænir og Íslands eitthvað, tala  nú digurbarkalega um útrás ,,okkar" á þessu sviði og segja hana  eiga að koma í stað virkjana og  stóriðju. En hvers vegna hefur hér  orðið til þessi yfirburða þekking sem ,,við" erum svo stolt af ? Jú, það er vegna þess að hér hefur verið þörf  fyrir orkuna - vegna  stóriðjunnar.
 Þetta vita stjórnmálamennirnir sem tala um þekkingariðnað í stað stóriðju, þeir vita vel að hér hefðu ekki verið stundaðar  orkurannsóknir með gríðarlegum  tilkostnaði  áratugum saman nema vegna þess að hægt er að selja orkuna.
 Þekkingariðnaður og þjónustuiðnaður eru tiskuorð stjórnmálamanna sem reyna að telja okkur trú um að við getum sem best lifað og fullnægt kröfum sem gerðar eru í velferðarríki- nú eða neyslusamfélagi - án þess að nýta orkulindir okkar. En  stóriðja er hátæknivædd, eins og oft hefur verið bent á og umhverfis hana byggist upp fjölþættur þekkingariðnaður. Ég sakna þess að heyra stjórnmálamenn nota orðið verkstæðisiðnaður, e.t.v. þekkja þeir ekki orðið. Verkstæðisiðnaður er hátækniiðnaður.
Hitt er svo annað mál að við eigum að nýta orkuna á sem hagkvæmastan hátt hverju sinni og ekki er sennilegt að álbræðslum fjölgi mikið úr þessu.

Þegar hinir sjálfskipuðu vinir náttúrinnar tala um að ferðamennska eigi að koma í stað stóriðju þá vita þeir vel að samkvæmt nýlegri orkuspá þá er einmitt gert ráð fyrir  að mest aukning í brennslu jarðefnaeldsneytis verði í flugsamgöngum. Stóraukinn túrismi er því ekki í þágu náttúruverndar heldur hið gagnstæða.


08.04.2007

08.04.2007

Okurvextir + verðtrygging

Hádegisfundur

Á hádegisfundi Samfylkingarinnar á Sólon á miðvikudaginn spurði ég hvort þingflokkurinn myndi beita sér fyrir afnámi verðtrygginga á fjárskuldbindingar, t.d í hugsanlegum samningum um stjórnarsamstarf að loknum kosningum .Tilefni spurningarinnar var m.a. það sem formaðurinn lýsti í ávarpi sínu; að heimilin í landinu eru þjökuð af háum vöxtum og samspili verðtrygginga og verðbólgu. Ingibjörg taldi ekki ráðlegt að afnema verðtrygginguna nú og færði fyrir því rök. Þó eru væntanlega flestir sammála um að það sé ekki eðlilegt ástand til langframa að saman fari háir vextir og verðtrygging. Þegar verðtrygging var felld niður af launum en haldið á fjárskuldbindingum, var talað um það sem tímabundið ástand meðan verið væri að ná tökum á verðbólgunni. Það tímabundna ástand hefur nú varað á þriðja áratug. Þó höfum við, miðað við verðbólgustig þá og verðbólgustig nú - fyrir löngu náð tökum á verðbólgunni.

Þegar skammt er til kosninga er ekki heppilegt að brjóta stór mál til mergjar innan flokksins. Slíkt gerist ekki án deilna og þótt deilur séu oftast ekkert annað en eðlilegur þáttur í samræðuferli og leit að sameiginlegri niðurstöðu, þá bjóða þær líka upp á óvinafagnað. Nú verður keyrt á stefnuskrár næstu vikurnar.

Ég sting hinsvegar upp á því sem verkefni þegar um hægist eftir kosningar, að haldið verði málþing um efnahagsmál og fjármál heimilanna. Fagmenn verði fengnir til að fjalla um þessi efni. Markmiðið verði að leita leiða úr þeirri gislingu sem vaxtaokur og verðtrygging hafa haldið okkur í - allt of lengi.