Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

16.05.2009

Meira um sykurskatt

Ekki er lát á ruglinu um sykurskattinn. Hugmyndin virðist nú hafa fengið undirtektir frá formanni Tannlæknafélagsins. Í máli formannsins er þó mikil missögn, því um leið og hún bendir á skaða af sætum gosdrykkjum upplýsir hún  að sykurlausa gosið sé engu betra fyrir tannheilsuna. Kannski ráðherrann sé reiðubúinn að bregðast við þeim vanda með sérstakri skattlagningu á sýrða drykki og rotvarnarefni.

,,Ögmundur kveðst hafa fengið mikinn hljómgrunn úti í þjóðfélaginu við hugmyndir um sykurskatt. Ögmundur kynnti hugmyndir sínar á ríkisstjórnarfundi í morgun. "Síðan á eftir að taka þá umræðu nánar hvað sjálfan skattinn áhrærir," sagði  Ögmundur.   

Ingibjörg Sara Benediktsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, tekur jákvætt í hugmyndir Ögmundar um sykurskatt. "Já, veistu, ég er ekki frá því, við erum náttúrlega með heimsmet í gosdrykkjaneyslu," segir hún.

Ingibjörg Sara segir sykurinn í sætum gosdrykkjum skemma tennurnar en í sykurlausum drykkjum sé rotvarnarefni og sýra sem eyði glerungi. "Sykurlausa gosið veldur alveg jafnmiklum glerungsskemmdum sem er stórt vandamál hjá íslenskum unglingum," segir hún en hnykkir á að tannskemmdirnar sjálfar myndist bara vegna sykurs. Hún kveðst hlynnt því að allt gos verði skattlagt frekar". *1

Þetta er alveg kostulegur málfluttningur hjá formanni tannlækna. Ætli að eyðing glerungsins megi ekki teljast upphaf tannskemmda ? 

Þarna er einfaldlega um heilsufarsvandamál að ræða sem verður að taka á með sama hætti og gert er á öðrum sviðum heilsugæslunnar. Það er alveg klárt að með auknu atvinnuleysi og almennum samdrætti í þjóðfélaginu þá mun fjölga enn þeim foreldrum sem hafa ekki nokkrurn möguleika á að kosta óniðurgreidda tannlæknaþjónustu fyrir börn sín.

 Í fréttum sjónvarps í gærkvöld benti annar tannlæknir á að börn gengju jafnvel með sýkingar út frá skemmdum tönnum. Slíkt væri ekki liðið ef um aðra líkamsparta en tennur væri að ræða. Lausn þessa vanda felst í skipulegu eftirliti með tannheilsu - eins og öðrum heilsufarsþáttum - skólabarna og stórauknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Þetta hljómar e.t.v. ekki vel í kreppunni, þægilegra að finna blóraböggul og tala um sykurskatt, en þetta er forgangsverkefni og til þess verður að finna fjármuni. Sem betur fer er hægt að benda á mögulegan sparnað á móti. Hann felst í því að hætta við að ausa fé í  svokallaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Nærtækara er að verja til heilbrigðismála þeim milljörðum sem áformað er að eyða í þau fínheit. Fyrir einungis nokkrum vikum - í svartamyrkri kreppunnar -tók  þáverandi umhverfisráðherra skóflustungu að s.k. gestastofu á Skriðuklaustri. Þetta er hús upp á nokkur hundruð milljónir, og verður þó ekki annað séð en að fyrir sé  á staðnum myndarlegt húsrými. Hætta þarf við þessa framkvæmd. Vera má að slíkt verkefni eigi rétt á sér á uppgangstímum, en nú um stundir getum við ekki leyft okkur slíkan flottræfilshátt. Fjármunina þurfum við m.a. að nota til að greiða fyrir tannviðgerðir barnanna.   

Að lokum skal minnt á hinar þýðingarmiklu forvarnir sem felast í því að forðast óhollustu, auk góðrar tannhirðu. Þar eru foreldrarnir í aðalhlutverki.

*1 úr frétt MBL.

14.05.2009

Vitleysa

Haft er eftir heilbrigðisráðherra að til greina komi að hækka skatt á ,,sykur og aðra óhollustu til að bæta tannheilsu þjóðarinnar". Að ráðherrann skuli láta sér detta þetta í hug er með slíkum ólíkindum að varla er hægt að ræða það - sem verður þó að gera sjái maðurinn ekki að sér. Eitthvað hefur ráðherrann pælt í vandamálinu, a.m.k. segir hann að ekki standi til að endurvekja skólatannlækningar til þess að ná til þeirra barna sem líða fyrir slæma tannheilsu. Skattlagning til viðbótar við snarhækkandi sykurverð skal það vera. Mig skortir orð. Vonandi batnar manninum.

 

01.05.2009

Langhundur Jóns Baldvins

Langhundur Jóns Baldvins í Fréttablaðinu í dag, Ellefu firrur um Evruland, er ekki merkilegt innlegg í umræðu um Evrópumálin. Þótt ritstjórn blaðsins brjóti reglur um stærð innsendra greina og leggi heila síðu undir viskuna úr Jóni, þá kemur þar ekker nýtt fram er geti auðveldað okkur að meta kosti eða galla EB aðildar. Þarna fer bara  sannfærður  EB-sinni með þuluna sína.


Öllu betur skrifaða grein um sama efni, eftir Hjörleif Guttormsson, getur að lesa í MBL í dag. Það er ekki með glöðu geði sem ég  ráðlegg mönnum að lesa Hjörleif, til þess er mér of fersk í minni frekja hans og yfirgangur í gamla Alþýðubandalaginu, þar sem við vorum flokksbræður fyrir margt löngu. En ekki verður Hjörleifur með réttu sakaður um að kynna sér ekki þau mál sem hann tekur til umræðu. Grein hans ber þess merki og vekur margar spurningar sem EB-sinnar virðast sniðgangan. Hún kallar á  alvöru svör við mörgum spurningum, m.a.um stöðu Evrópusambandsins almennt og framtíðarhorfur þess.Lýðræði kemur þar einnig við sögu.