Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

18.06.2009

Illur á sér ills von

Ekki vil ég segja að stjórnvöld séu ill, en óneitanlega kemur máltækið í hugann þegar fram kemur að almenningi hafi ekki verið hleypt inn í Dómkirkjuna á þjóðhátíðardaginn - af öryggisástæðum. Margt illt hefur hlotist af glæfrum útrásavíkinganna.  Icesave málið er mönnum eðlilega efst í huga nú, en tortryggnin og reiðin sem kraumar í samfélaginu mun sennilega breyta samskiptaháttum okkar til frambúðar.

 

Hingað til hafa ráðamenn þjóðarinnar virtst óhræddir á almannafæri. Hér hafa ráðherrar gengið um götur innan um fólkið, án lífvarða, heilsað kunningjunum, og engum virðist hafa komið í hug að þessa  menn þyrfti að vernda sérstaklega. Nú mun öldin önnur - því miður. Ein ömurleg birtingarmynd þess var takmarkaður aðgangur að Dómkirkjunni  þ. 17. júní, þegar þjóðin fagnaði 65 ára sjálfstæði sínu. Það er ekki víst að ráðherrar eða stjórnmálamenn yfirleitt, séu samþykkir slíkum öryggisráðstöfunum en hætt er við að þeir sem bera ábyrgð á öryggismálum taki af þeim ráðin. Ef til vill erum við háð einhverjum EES- reglum um það hvernig halda beri þjóðinni frá valdamönnum.                         

18.06.2009

Á vélskóflu framhjá reglunum

Maðurinn sem í örvæntingu og reiði braut niður hús sitt á Álftanesi hafði ekki sótt um leyfi fyrir þeim verknaði. Byggingarfulltrúinn hafði sem sé enga umsókn fengið þegar ósköpin dundu yfir. Alveg merkilegt, eða hvað?  Þetta er sorgarsaga, persónulegur harmleikur, en þessar embættislegu pælingar eru óneitanlega broslegar: Maðurinn braut bara húsið í leyfisleysi !

 Fréttablaðið í dag:                                                                                                           Bjarni S. Einarsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Álftaness, segir að sækja þurfi um byggingarleyfi til niðurrifs húsa en engin umsókn hafi borist um rif þessa húss. Hann segist hafa komið fyrst að þessu máli sem íbúi, í gönguferð um götuna. "Ég sá hvað var að gerast og kallaði lögreglu og eigendur til," segir Bjarni. "Ég er orðlaus yfir þessu," bætir hann við.

17.06.2009

Sjónvarpið heiðrar Halldór

Fréttastofa ríkissjónvarpsins gerði það gott í fyrrakvöld eins og stundum áður:  ,,Það var helst í fréttum að Halldór Ásgrímsson telur það ekki hafa verið mistök að einkavæða bankana", var okkur sagt í kvöldfréttatímanum og tví eða þrítekið. Sjónvarpið hafði þá um daginn náð tali af Halldóri austur á Skriðuklaustri.

Fullyrðing Halldórs er raunar rétt, auðvitað átti að einkavæða, þ.e. selja, a.m.k. tvo af bönkunum. En framkvæmdin var í skötulíki, ekki þó fyrir mistök heldur einbeittan brotavilja helmingaskiptastjórnar Íhalds og Framsóknar sem purkunarlaust hyglaði sínum pólitísku hlöðukálfum. Vitað er að Halldór beitti sér þá af mikilli hörku fyrir greiðum aðgangi S-hópsins að kjötkötlunum.  

 

Í lotningarfullu viðtali fréttakonu sjónvarpsins við þennan höfuðsnilling annarlegra hagsmuna kom fram, að hann hefði rétt nýlega frétt af tilvist Icesave-reikningana, spurning hvort hann hefur nokkuð heyrt um spillingu í Framsókn. Halldór er einn helsti höfundur kvótakerfisins, ég stilli mig um að hafa fleiri orð um það. Stjórnmálaferlinum lauk hann - eftir hlálegan feril sem forsætisráðherra - með flokkinn sinn í rúst. Kjósendur eru nú ekki vitlausari en svo. Í framhaldinu tróð hann sér í stöðu framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar en röðin var þá komin að Finnum að sinna því embætti. Hingað mun Halldór hafa komið nú vegna fundar norrænu forsætisráðherranna.

 

Nýtt Ísland þarfnast ekki Haldórs Ásgrímssonar. Hann fékk sitt tækifæri og notaði það í áratugi eins og þjóðin hefur fengið að sjá. Sennilega mun sú mynd skýrast enn frekar eftir því sem rannsókn á umsvifum auðmanna og pólitíkusa m.a. á valdatíma Halldórs vindur fram.

Einskonar heiðursviðtal ríkissjónvarpsins við Halldór, þótt hann rækist hingað á kostnað skandinavískra skattgreiðenda, var með öllu óviðeigandi. Faglega séð var viðtalið vindhögg því viðmælandinn hafði ekkert til málanna að leggja. Það sýndi bara afdankaðan pólitíkus sem annað hvort hafði sólbrunnið  í blíðunni þar um daginn eða fengið sér um of í tána.

07.06.2009

Dýr gerningur

 

 

 

Einhverjir fleiri en ég hafa undrast þá ráðstöfun stjórenda Listasafns Íslands að kaupa ljósmynd af  gerningi listamannsins Sigurðar Guðmundssonar á 10 milljónir króna. Rök forstöðumanns safnsins fyrir þeirri meðferð fjármuna skattgreiðenda er að þarna sé um að ræða ,, eitt af helstu verkum íslenskrar sam-tíma-listar á síðustu öld".

 

Ég get auðvitað ekki deilt um mat á listagildi verka við lærða menn í ,,fræðunum". Verð að láta nægja að segja hvað mér finnst. Og vel get ég trúað því að þetta sé einmitt eitt merkasta framlag til nútímalistar okkar á síðustu öld. Mér virðist nefnilega að á síðustu áratugum hafi verk margra þeirra ,, myndlistarmanna" sem mest er látið með, snúist frá listsköpun upp í einhverja fáránlega samkeppni um skringilegasta uppátækið. Þetta blessar svo elítan og lætur milljón detta hér og tug milljóna þar, svo lengi sem skattfé er handbært.  

 

Í umræðunni er þegar farið að saka menn um fordóma vegna þessa máls. Ég fyrir mitt leiti bregð mér ekki við þá einkunn. En mér blöskrar þessi ráðstöfun á almannafé.