Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

13.11.2005

Ógeðfelldur málflutningur.

Ógeðfelldur málflutningur.

   Undanfarið hafa birtst í blöðum fjölmargar greinar þar sem haldið er á lofti kröfunni um að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Höfundarnir eru flestir af  landsbyggðinni og virðast telja sig mikla þungavigtarmenn í sínum sveitum enda þingmenn sumir. Þessi málflutningur af landsbyggðinni er ákaflega ógeðfelldur enda ódulin tilraun til þess að hlutast til um skipulagsmál í Reykjavík. Það má velta því fyrir sér hvað þeir myndu segja þingmenn landsbyggðarinnar, ef Reykvíkingar vildu fara ráða skipulagsmálum á Ísafirði eða Siglufirði, svo dæmi séu tekin.  Ætli þeim þætti sér ekki  gróflega misboðið.

    Borgarbúar eru auðvitað vanir því frá fornu fari að hingað komi til þings prófastar og góðbændur af landsbyggðinni og ræði hagsmuni atvinnuveganna: landbúnaðar og sjávarútvegs. Aflétting vistabandsins     ( þess tíma þrælahalds) var mesta harmsefni slíkra höfðingja og fyrirlitning þeirra á tómthúsmönnum Reykjavíkur var djúp. Stundum finnst manni nánast að þetta hafi verið í gær, enda yfirgangur héraðshöfðingja samur við sig í þinginu. Grófasta dæmi þess er auðvitað misvægi atkvæða. Það er tími til kominn að þingmenn Reykvíkinga fullvissi kollega sína af landsbyggðinni um að skipulagsmálum í Reykjavík verði best ráðið af þeim aðilum sem borgarbúar kjósa til þeirra starfa.  

    Reykvíkingar hafa löngum verið einkennilega skeytingarlausir um að bera hönd fyrir höfuð sér og verja sín málefni. Flest eigum við rætur ,, úti á landi" og e.t.v. má skýra sinnuleysi okkar í þessum efnum með því að  óþörf  sektarkennd þeirra er ,,sviku" sveitina og komu sér fyrir á mölinni, sé enn til staðar í afkomendum þeirra.   Á sínum tíma voru Reykvíkingar kallaðir Grímsbý-lýður og lengi tíðkaðist að dásama hið  göfuga líf  í sveitunum og hefja það yfir,,ljótleikann og siðleysið í Reykjavík".

Yfirlætið gagnvart borgarbúum, sem einkennir margar flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni- greinarnar, virðist einmitt  af þessum toga: ,, hafa þessir menn gert sér grein fyrir",  ,, hafa þessir menn hugsað út í", osfrv. eru dæmi um orðalag sem gjarnan er notað gegn rökum þeirra sem vilja að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Af þessu á auðvitað að skiljast að Reykvíkingum sé ekki treystandi til að reikna dæmið, vissara sé að fá til þess gáfumenn utan af landi.

Hann virðist lífseigur Hriflu-andinn.

 

 

12.11.2005

Reykjavíkurflugvöllur.

Nýr Reykjavíkurflugvöllur. 

  

    Sem betur fer virðist nú stefna í pólitíska sátt um að nýta Vatnsmýrina sem byggingaland í náinni framtíð. Í samræmi við það verður flugvöllurinn að víkja af svæðinu, það er augljóst þótt einhverjir ráðamenn séu enn tvístígandi í málinu.  Hitt er svo annað mál, að það er gríðarlega þýðingarmikið að hafa flugvöll sem næst höfuðborginni. Það er ekki viðunandi lausn að flytja starfsemina til Keflavíkurvallar. Miklir hagsmunir eru í húfi.  Segja má að hótel hafi rokið upp í og við miðborgina á undanförnum árum. Þá hefur nú verið ákveðið að byggja tónlistar og ráðstefnuhús í miðborginni.  Vægi ferðaþjónustu fer vaxandi í atvinnulífi borgarinnar og þýðing flugvallar er í samræmi við það.

   Þá er ónefnt það sem ekki skiptir minnstu máli en það eru fyrirtækin á flugvellinum. Þar er vinnustaður mörg hundruð Reykvíkinga. Það væri sannkallaður flottræfilsháttur að láta sig engu skipta þótt sú starfsemi flyttist úr borginni. Það er miklu eðlilegri framtíðarsýn að sjá þessa starfsemi eflast og dafna.  Við þurfum í raun nýjan flugvöll þar sem farþegaþotur geta með góðu móti athafnað sig.  

Þjóð sem lætur sig ekki muna um að verja 10 milljörðum í Héðinsfjarðargöng, með þeirri nýtingu sem áætlað er að verði á því mannvirki, heykist varla á að endurnýja flugvöll við höfuðborg sína.

   Nú eru einkum tveir staðir nefndir sem mögulegir undir flugvöll í nágrenni borgarinnar: Miðdalsheiði og Löngusker. E.t.v. ætti að setja heiðina í sviga í bili en taka heldur Akurey inn í dæmið og  rannsaka þann kost til hlýtar ásamt Lönguskerjum. E.t.v. er Akurey ekki fýsllegur kostur af veðurfarslegum ástæðum    -margir fullyrða það - en það þarf  að ganga úr skugga um þetta því mögulegir kostir fyrir flugvöll nærri miðborginni eru dýrmætir.

 

 

 

 

 

10.11.2005

Fyrirsláttur borgaryfirvalda.

Í pistli með fyrirsögninni Íbúalýðræði hér á síðunni var sagt frá loforði borgaryfirvalda frá 1994 þ.e. að gert yrði skautasvell í nágrenni Fellaskóla. Þetta hefur enn ekki verið framkvæmt eins og fólk veit. Á fundi borgarstjóra í Gerðubergi nú nýlega bar þetta forna mál á góma og í óformlegu spjalli eftir fundinn var mér tjáð að foreldrafélagið hefði að lokum fengið það svar frá borginni að ekki væri mögulegt að gera skautasvell í nágrenni skólans vegna þess að á svæðinu væru ekki nægjanlega afkastamikil niðurföll. Það var svo sem fróðlegt  fyrir mig  að fá nú að heyra hverju var borið við til réttlætingar. Ég hafði á sínum tíma nokkra forgöngu um þetta erindi til borgaryfirvalda og reyndi að fylgja því eftir en varð að lokum ljóst að við óheilindi var að fást og að einhverjir í kerfinu höfðu ákveðið að þvælast fyrir málinu.  Að lokum virðast þessir aðilar hafa dottið niður á stóru niðurfallakenninguna til að bera fyrir sig. Sú viðbára er hinsvegar ómerkilegt bull og annað ekki: Þótt gert væri náttúrulegt skautasvell, samkvæmt lýsingu í bréfi borgarráðs  til foreldrafélags Fellaskóla veturinn 1994, þá kallaði  það ekki á  sérstök niðurföll. Ekki væri um að ræða  neitt gríðarlegt vatnsmagn sem hleypt yrði niður í einu vetvangi. Lagnakefið - sem tekur við snjóbráðnun af svæðinu - myndi duga fullkomlega.

Ég mun nú á næstunni leita eftir þeim gögnum sem til kunna að vera um málið í borgarkerfinu og gera grein fyrir þeim hér. 

 

09.11.2005

Nýtt albúm.

Mínir kæru, örfáu lesendur.

Nú er langt síðan pistli hefur verið bætt á þessa síðu enda skrifarinn í önnum á öðrum  vettvangi. Úr þessu mun þó rætast bráðlega því eitthvað er í pípunum. En ég er að loks farinn að setja inn myndir - rétt að byrja - í albúmi eru nú nokkrar myndir frá ferð á Arnarvatnsheiði, en þar held ég að fegurð sé einna mest sem fundin verður í veröldinni - þegar veður eru blíð.  Gjörið svo vel og kíkið í albúmið.